Vill eitt lífeyriskerfi fyrir alla

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það á að vera stefna okkur að mynda hér eitt samstætt og sjálfbært lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn.“ Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra þegar hann ávarpaði þing Kennarasambands Íslands.

Steingrímur sagði að eitt lífeyriskerfi væri besta leiðin til að skapa frið um lífeyrismálin. Þá gætu menn hætt deilum um mismunandi réttindi og mismunandi ábyrgð.

Steingrímur útfærði ekki hugmyndir sínar um hvernig hann vildi ná fram einu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Hann sagði hins vegar að ef tækist samkomulag um eitt kerfi þá hefði hann trú á að ekki þyrfti að deila um uppgjör á skuldbindingum sem hlaðist hefðu upp. Með bættum hag ríkissjóðs og sveitarfélaga ætti að takast að borga inn á þá skuld.

„Það væri að sjálfsögðu algerlega ábyrgðarlaust að bíða án nokkurra aðgerða í þessum efnum þangað til að sjóðirnir tæmast í byrjun þriðja áratugar aldarinnar og skilja þann ógreidda reikning allan eftir handa þeirri kynslóð sem þá verður að stjórna okkar málum,“ sagði Steingrímur.

Eiríkur Jónsson, fráfarandi formaður KÍ, hvatti einnig til þess að komið yrði á fót einu samstæðu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn, en til þess að svo mætti verða yrðu forystumenn ASÍ og Samtaka atvinnulífsins að hætta árásum á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert