Framganga Íslands vekur athygli

Seðlabanki Grikklands
Seðlabanki Grikklands Reuters

Ísland er aftur komið í umræðuna um hina alþjóðlegu efnahagskreppu, eftir að athyglin hafði beinst að verst stöddu löndum Evrópusambandsins, Írlandi, Grikklandi og Portúgal um nokkurt skeið. Nú beinist athygli þessara landa í auknum mæli að Íslandi og þeirri leið sem þar er verið að fara.

Þannig setur Aditya Chakrabortty, leiðarahöfundur breska dagblaðsins Guardian dæmið upp í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um helgina.

„Álitsgjafar kölluðu Ísland Íkarusar-hagkerfið sem hefði loksins hrapað til jarðar. Það varð bæði að dæmisögu og aðhlátursefni. Hver er munurinn á Íslandi og Írlandi? - grínuðust miðlarar - einn bókstafur og nokkrir mánuðir,“ segir Chakrabortty.

„Þó það hafi ekki farið hátt er Ísland nú orðið að annars konar dæmisögu - um það hvernig draga á úr neikvæðum áhrifum hruns fjármálakerfis með því að kasta hefðbundinni hagfræði fyrir róða,“ heldur hann áfram.

Chakrabortty hefur það eftir írska þingmanninum Stephen Donnelly að þingmenn og fjölmiðlar séu í auknum mæli farnir að gefa Íslandi gaum. Hann vitnar einnig til orða portúgalska blaðamannsins Joana Gorjão Henriques, sem segir þarlenda kollega sína senda fréttir um Ísland sín á milli. Sumum finnist að Írar, Portúgalir og Grikkir eigi að sameinast gegn Evrópusambandinu og hafna því að greiða skuldir sínar að fullu.

Greinin í Guardian

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert