Fugl ofsótti íslenska fjölskyldu

Skógarhænsn í vígahug.
Skógarhænsn í vígahug.

Íslensk fjölskylda, sem dvalið hefur í orlofshúsi á Notodden í Noregi, varð fyrir því, að skapvont skógarhænsni kom í heimsókn og varð fólkið að flýja undan fuglinum inn í húsið.

Fram kemur á vef Aftenposten, að fjölskyldan, sem býr í Tønsberg, hafi fyrst þótt skemmtilegt þegar skógarhænsnið kom að kofanum. En gamanið kárnaði þegar fuglinn gerðist aðgangsharður og hjónin og tvö börn þeirra urðu á endanum að leita skjóls í húsinu.

„Hann kom bara gangandi um morguninn, ég veit ekki hvaðan," segir fjölskyldufaðirinn, Sverrir Hilmar Gunnarsson, við Aftenposten. „Við höfum aldrei upplifað neitt slíkt áður. Þetta kann að vera broslegt en okkur var ekki hlátur í hug."  

Sverrir segir, að fuglinn hafi staðið vörð við kofann allt kvöldið og nóttina. Þegar gluggatjöldin voru dregin frá í morgun hafi fuglinn verið það fyrsta sem fjölskyldan sá.  

Öll verkfæri, sem hægt hefði verið að nota til að hrekja fuglinn á brott voru skilin eftir utan við húsið í gær. Sverrir segist hafa reynt að hringja í villidýranefnd en fékk enga hjálp þar og því varð fjölskyldan sjálf að reyna að reka þennan óboðna gest af höndum sér.

„Við fórum út, náðum í kúst og eltum fuglinn. Hann fór á brott, við pökkuðum saman dótinu og þá kom hann aftur. Þegar við opniðum dyrnar reyndi hann að stinga hausnum inn. En okkur tókst að reka hann burtu á endanum," hefur blaðið eftir Sverri.

Fjölskyldan flýtti sér þá út í bíl og ók heim til Tønsberg. Fram kemur að húsmóðirin hafi fengið sár á fingurinn þegar skógarhænsnið hjó í hann.

Nú er mökunartími fuglanna og kann það að skýra hvers vegna þessi fugl var svona skapstyggur.

Frétt Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert