Fréttaskýring: Algjör óvissa ríkir um stofnun nýs þingflokks VG

Frá þingflokksfundi VG þar sem allt virðist leika í lyndi …
Frá þingflokksfundi VG þar sem allt virðist leika í lyndi á yfirborðinu. mbl.is/Ómar

Þau þrjú, Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir, fyrrverandi þingmenn VG, en enn félagar í VG, gerðu ekkert annað en auka við óvissuna í stjórnmálum síðdegis í gær, þegar þau sendu frá sér sameiginlega tilkynningu til fjölmiðla, þar sem segir að þau telji „að ekki sé tímabært að svo stöddu að stofna nýjan þingflokk“. Niðurstaða þeirra er túlkuð á mismunandi vegu, eins og gefur að skilja.

Gagnrýnendur þeirra segja, að með þessari niðurstöðu hafi þau sýnt ótvíræð veikleikamerki. Þau telji sig ekki hafa styrk og stuðning til þess að koma fram sem öflugt stjórnmálaafl; þau skorti samhæfingu og samræmingu, þannig að þau geti virkað sem nýtt, öflugt afl sem höfði til kjósenda og laði að fylgi. Þau séu þrír ólíkir persónuleikar, sem hafi það eitt sameiginlegt að hafa verið óþæg innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, en samnefnari þeirra í pólitík sé ekki fyrir hendi; þau hafi misnotað tækifærið til þess að koma fram sem öflugra afl í þingflokki, með þeim áhrifum sem slíkt gefi þeim, t.d. með seturétti á vikulegum fundum þingflokksformanna og með áheyrnarsæti í forsætisnefnd. Þau hafi yfirhöfuð klúðrað góðu tækifæri til þess að verða að alvöru pólitísku afli.

Stuðningsmenn ánægðir

En þeir sem standa þremenningunum nær en þeirra helstu gagnrýnendur, eru á allt annarri skoðun. Benda þeir á að skynsamlegt hafi verið hjá þeim að ákveða að bíða og sjá hvernig hið pólitíska landslag þróast og breytist á næstu vikum og mánuðum.

Nú séu aðeins um sex vikur eftir af þingi og svo taki við sumarhlé. Það sé eðlilegt að þau þrjú vilji nota næstu vikur og mánuði til þess að kanna landið og baklandið. Þau þurfi að komast til botns í því hversu mikið fylgi þau eiga í grasrót VG og jafnvel utan þess flokks. Greinilegt er af orðum stuðningsmanna þremenninganna, að þeir gera sér í hugarlund að þremenningarnir njóti umtalsverðs fylgis, langt út fyrir raðir VG.

Þá benda fylgismenn þeirra á það, að mikil pólitísk gerjun eigi sér stað innan annarra stjórnmálaflokka þessa dagana. Bent er á að Framsóknarflokkurinn sé nánast klofinn í herðar niður, Hreyfingin geti hreyfst hvert sem er og að mikillar sundrungar gæti í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Kortleggja og meta

Þetta þurfi þremenningarnir allt að kortleggja og meta, m.a. með fundahöldum og í eigin kjördæmum, áður en endanleg ákvörðun verði tekin um það hvort rétt sé að stofna nýjan þingflokk VG á Alþingi Íslendinga.

Þeir sem svo tala, segja því að það hafi verið skynsamleg ákvörðun hjá þeim Atla, Ásmundi Einari og Lilju í í gær að ganga hægt um gleðinnar dyr. Þau þurfi að finna út á næstu vikum hvort það er fleira en færra sem sameinar þau; þau þurfi að komast að sameiginlegri niðurstöðu um það hvort þau í raun og veru eiga samleið í stjórnmálum.

Viðmælendur Morgunblaðsins eru síður en svo sammála um að sú verði niðurstaðan, að þau Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir eigi pólitíska samferð fyrir höndum.

Ekki tímabært

Þau Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir sendu frá sér eftirfarandi yfirlýsingu síðdegis í gær:

„Undirrituð hafa í dag og undanfarna daga farið yfir stöðuna eftir úrsögn úr þingflokki Vinstri grænna. Staðan í íslenskum stjórnmálum er óráðin. Það er niðurstaða okkar að ekki sé tímabært að svo stöddu að stofna nýjan þingflokk. Við munum starfa sem óháðir þingmenn og í anda þeirra hugsjóna sem við töluðum fyrir í aðdraganda síðustu kosninga.“ Undir yfirlýsinguna skrifa þessir þrír fyrrum þingmenn VG, sem enn eru flokksfélagar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, þau Atli, Ásmundur Einar og Lilja. Þegar í gær gætti mikillar gagnrýni á þessa yfirlýsingu þremenninganna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert