Málflutningur gegn Geir í haust

Landsdómur kemur saman í Þjóðmenningarhúsinu.
Landsdómur kemur saman í Þjóðmenningarhúsinu. Kristinn Ingvarsson

Mál gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, verður þingfest fyrir landsdómi í Þjóðmenningarhúsinu 7. júní næstkomandi klukkan 13.30. Stefna landsdóms og ákæra saksóknara Alþingis á hendur Geir var birt verjanda hans í dag.

Við þingfestinguna 7. júní verður ákæran lögð fram formlega og eins gögnin, að sögn Sigríðar J. Friðjónsdóttur, saksóknara Alþingis. Hún sagði að verjandi Geirs muni síðan fá frest til að skila greinargerð. Lengd frestsins ræðst m.a. af því hvað verjandinn telur sig þurfa langan frest.

Ef verjandinn gerir kröfu um frávísun þarf að byrja á að greiða úr henni. Sigríður kvaðst ekki vita hvort það verði gert í sumar eða haust, komi frávísunarkrafa fram. Hún sagði þó ljóst að málflutningur með öllum vitnum geti ekki farið fram fyrr en í haust. 

Birting ákærunnar bar nokkuð brátt að. Gögnin voru ekki tilbúin en þau eru í ljósritun og verða send sérstaklega, að sögn Sigríðar. 

Saksóknarar Alþingis, Sigríður Friðjónsdóttir og Helgi Magnús Gunnarsson.
Saksóknarar Alþingis, Sigríður Friðjónsdóttir og Helgi Magnús Gunnarsson. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert