Fréttaskýring: Rökstuðningur í málflutningnum

Fimmtán dómendur sitja í landsdómi..
Fimmtán dómendur sitja í landsdómi.. mbl.is/Kristinn

„Það er í raun enginn rökstuðningur í ákærunni. Maður hefði átt von á að það væri einhver rökstuðningur fyrir ákæruatriðum og tenging við gögn málsins, en það er rýrt. Maður hefur efasemdir um að þetta gangi svona,“ sagði Andri Árnason, verjandi Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í samtali við fréttavef Morgunblaðið, mbl.is, á þriðjudag. Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, segir ákæruna skýra og ekki eigi að þurfa frekari rökstuðning í henni nema sem fram komi í málflutningi.

Í lögum um meðferð sakamála er tilgreint hvað skal koma fram í ákæruskjali. Orðrétt segir í d-lið 152. gr. laganna að í henni skuli greina svo glöggt sem verða megi „röksemdir sem málsóknin er byggð á, ef þörf krefur, svo sem ef mál er flókið eða umfangsmikið, en röksemdafærslan skal þá vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftir eru.“

Sigríður segir þetta ákvæði, sem fyrst var lögfest með sakamálalögunum, ekki hafa vakið hrifningu hjá ákæruvaldinu „af því að ákæran á einmitt að skýra sig sjálf með lýsingu á sakarefninu. Það á ekki að þurfa rökstuðning umfram, nema í málflutningi.“ Hún segist engan flöt finna á því enda óljóst hvar hún ætti þá að byrja rökstuðninginn og hvar hann enda.

Ítarlega skjalaskrá fylgir

Ákæran er, að mati Sigríður, alls ekki óskýr en málflutningurinn mun snúast um að leiða rök að þeim sakargiftum sem þar koma fram, líkt og hefðbundið er í sakamálum. „Meðal annars mun fylgja mjög ítarleg skjalaskrá, sem verður vel yfir hundrað síður. Og þetta er meira en skjalaskrá því þetta er lykillinn að málinu. Þar verður skilgreining á öllum þeim skjölum sem lögð eru fram, hver tilgangurinn er með framlagningu þeirra og undir viðkomandi ákæruliðum. Þar eru menn því komnir með gott yfirlit yfir það sem sækjandinn í málinu leggur upp með; rökstuðning fyrir ákæruliðunum. En ég set þetta ekki inn í ákæruskjalið.“

Meðal þeirra sem hafa tjáð sig um ákæruna á opinberum vettvangi er Jón Magnússon, hæstaréttalögmaður og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks. Á vefsvæði sínu segir hann að athyglisvert sé að í ákærunni séu „ákæruatriði vegna mála sem heyrðu ekki undir forsætisráðherra heldur aðra ráðherra, m.a. viðskiptaráðherra“. Hann segir að miðað við almennu ákæruatriðin hefið eins mátt ákæra þáverandi forsætisráðherra Bretlands og jafnvel forseta og fjármálaráðherra Bandaríkjanna.

„Veikur málatilbúningur“

Hæstaréttarlögmaðurinn Brynjar Níelsson, og formaður lögmannafélags Íslands, segir að ákæruvaldinu sé vorkunn að reyna að smíða ákæru úr þessari þingsályktun þingsins. Hann bendir á að Geir sé ákærður fyrir athafnaleysisbrot, sem er samkvæmt ákvæðum laga heimilt, en til þess að fá fram sakfellingu þurfi að tilgreina í ákæru hvað Geir gat gert til að afstýra falli bankanna. Ekki sé nóg að segja að hann hafi átt að gera eitthvað. Þá sé ekki vitað hvort athafnaleysi Geirs, eða það sem hann gerði, hafi hugsanlega dregið úr tjóni íslenska ríkisins. Rétt eins og ekki er vitað hvort það hefði ekki aukið tjónið hefði Geir framkvæmt eitthvað af því sem í ákærunni segir.

Brynjar segir ákærur af þessu tagi í skötulíki og er nokkuð viss um að hún yrði ekki tekin góð og gild fyrir almennum dómstólum í venjulegum málum. „En þetta mál er að vísu ekki venjulegt.“

Hvað varðar annan kafla ákærunnar segir Brynjar að þar sé jafnvel að finna undarlegri lýsingu á refsiverðri háttsemi. „Þar finnst mér sem ákæruvaldið segi í einu orðinu að ekki hafi verið haldinn ráðherrafundur um yfirvofandi háska en í næstu setningu að það hafi verið gert en ekki nógu mikið og ekki formlega. Þetta er veikur málatilbúningur.“

Sátu ekki á höndunum

Meðal þess sem gagnrýnt hefur verið er að ákæra var gefin út sjö mánuðum eftir að Alþingi samþykkti málsóknina, og er hún nánast orðrétt eftir þingsályktun Alþingis.

Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, segir ákæruskjalið hálfgert aukaatriði í málinu. Þegar málið sé þingfest þurfi að vera búið að leggja grunn að því með gagnaöflun. Og hún hafi tekið lengri tíma en reiknað var með. „Við höfum ekkert setið á höndunum og beðið eftir að geta sent frá okkur þessa einu og hálfu blaðsíðu,“ segir Sigríður og einnig að Geir og verjandi hans viti manna best hvers vegna þetta hafi tekið þennan tíma.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert