Árni Páll átti fund með ESA

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra. mbl.is/GSH

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, fundaði í dag með stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þar sem svar Íslands til stofnunarinnar vegna Icesave-málsins var reifað og rætt. Fram kom að nú þegar séu til reiðu hundruð milljarða króna í handbæru fé sem verði greidd úr búi Landsbankans.

Fram kemur í tilkynningu að á fundinum hafi verið rætt um að endurheimtur úr búi Landsbankans muni væntanlega duga til að greiða öllum innstæðueigendum í Bretlandi og Hollandi þorra krafna þeirra. Þetta eigi jafnt við um þá sem hafi fallið undir lágmarkstryggingu upp á 20.887 evrur og aðra innstæðueigendur, jafnt einstaklinga, góðgerðafélög og sveitarfélög.

„Forsenda þessara greiðslna er sú ákvörðun Alþingis að gera allar innstæður að forgangskröfum í þrotabú banka með setningu neyðarlaga haustið 2008. Nú þegar eru til reiðu hundruð milljarða króna í handbæru fé sem verða greidd úr búi Landsbankans um leið og Hæstiréttur hefur greitt úr réttaróvissu um útgreiðslurnar,“ segir í tilkynningu.

Þá segir að Árni Páll hafi rætt Icesave-málið, framgang aðildarumsóknar Íslands og stöðu efnahagsmála á sérstökum tvíhliða fundum með ráðherrum fjölmargra ríkja á efnahags- og fjármálaráðherrafundi Evrópusambandsins ECOFIN í gær. Þá hafi hann rætt sömu mál og umbætur á regluverki og eftirliti með fjármálastarfsemi á fundi með Michel Barnier, framkvæmdastjóra innri markaðar ESB.

„Í málafylgju á alþjóðlegum vettvangi leggur Ísland áherslu á að landið hafi fylgt réttum og viðurkenndum alþjóðlegum reglum um gjaldþrotaskipti fjármálafyrirtækja og hafi sérstaklega aukið rétt innstæðueigenda gagnvart þrotabúum haustið 2008. Sú aðgerð hafi verið eina færa leiðin til að tryggja þeim fulla greiðslu, við þær neyðaraðstæður sem þá sköpuðust. Árangur þessarar leiðar verði ljósari með hverjum degi,“ segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert