Eru vænar en dyntóttar fyrir vestan

Hópur veiðikvenna æfði fluguköst við Rauðavatn í fyrrakvöld. Hér segir …
Hópur veiðikvenna æfði fluguköst við Rauðavatn í fyrrakvöld. Hér segir Klaus Frimor einni þeirra til. mbl.is/Einar Falur

„Þær hafa verið vænar,“ sagði Árni Arnar Sigurpálsson hótelstjóri í Hótel Bjarkalundi í Reykhólasveit, þegar hann var spurður um bleikjurnar sem hann og fleiri hafa verið að veiða í Berufjarðarvatni neðan við hótelið undanfarið.

Silungsveiðin hefur víða farið ágætlega af stað, þótt bakslag komi líklega í hana vegna kulda þessa dagana; meðal annars lætur Árni Arnar vel af fiskunum sem hafa bæði verið að veiðast á spún og flugu hjá þeim fyrir vestan.

„Þetta er staðbundin bleikja og mjög góð,“ segir hann. „Þetta er þessi aldamótafiskur, sem sumir kalla, en ekki er vitað um eldri heimildir um fiskeldi en hér. Í vatnið rennur svokallaður Alifiskalækur en um hann eru til fornar heimildir.“

Hann segir mjög vænar bleikjur hafa veiðst og þær fari stækkandi með hverju árinu.

„Þær stærstu hafa verið sjö til átta pund. Það er engin rosa veiði, bleikjan er dyntótt eins og menn þekkja, en stundum fást mjög fallegir fiskar.“

Silungurinn hefur látið á sér kræla víðar fyrir vestan, meðal annars í Sauðlauksdalsvatni en það er á Veiðikortinu. Þar hafa veiðimenn fengið allt að tíu fiska í veiðiferð.

Kastnámskeið vinsæl

Víða þiggja áhugasamir veiðimenn tilsögn í fluguköstum þessa dagana. Það hefur meðal annars mátt sjá á bökkum Rauðavatns undanfarin kvöld, hér rétt neðan við ritstjórnarskrifstofur Morgunblaðsins. Í fyrrakvöld var þar á annan tug kvenna sem æfðu köstin og lögðu flugulínurnar með sífellt faglegri hætti á vatnið – án þess að nokkur fluga væri á taumnum.

Á milli kvennanna gengu kennararnir Óskar Páll Sveinsson, Klaus Frimor og Hilmar Hansson og sögðu nemendunum til. Hilmar er eigandi verslunarinnar Veiðiflugur sem heldur utan um námskeiðin og hann sagði að mikil ásókn væri í kastkennsluna og væru þeir félagar að kenna öll kvöld til 10. júní, einhenduköst við Rauðavatn og tvíhenduköst í Sogi.

Veiði með stöng og byssu

„Það hefur verið töluverð harka að halda þetta út í þrjátíu ár,“ segir Gunnar Bender, ritstjóri Sportveiðiblaðsins, en út er komið myndarlegt tölublað í tilefni afmælisins. Gunnar segir að efnistök Sportveiðiblaðsins hafi verið að breytast, því hlutur skotveiði hafi aukist, auk sjóstangveiði. „Þessum breytingum hefur verið mjög vel tekið,“ segir hann.

Meðal efnis í afmælisritinu er viðtal við Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara sem er ástríðufullur veiðimaður, rætt er við ýmsa aðra veiðimenn og sagt frá veiðistöðum. Sportveiðiblaðið kemur þrisvar sinnum út á ári. „Við verðum með blað í júlí, þegar laxveiðin verður komin vel af stað, og svo aftur í haust þegar styttist í rjúpnaveiðina,“ segir Gunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert