Evrópskir mótmælendur horfa til Íslands

Andstæðingar fyrri Icesave-samningsins skora á forsetann að synja lögunum staðfestingar …
Andstæðingar fyrri Icesave-samningsins skora á forsetann að synja lögunum staðfestingar með táknrænum hætti fyrir utan Bessastaði. mbl.is/RAX

„Ég tek heilshugar undir þessi sjónarmið og hef sjálfur lengi bent á að þegar að valið stendur á milli einkaeignaréttar annars vegar og mannréttinda hins vegar að þá ber að forgangsraða í þágu mannréttinda,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, aðspurður um ummæli forseta Íslands um sigur lýðræðisins yfir peningaöflunum.

Sammála Lilju og forsetanum

Lilja Mósesdóttir segir viðtalið í portúgalska tímaritinu Visaó „eins og talað út úr sínu hjarta“. Ögmundur er einnig sammála boðskap Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. 

„Ég tek heilshugar undir þessi sjónarmið og hef sjálfur lengi bent á að þegar að valið stendur á milli einkaeignaréttar annars vegar og mannréttinda hins vegar að þá ber að forgangsraða í þágu mannréttinda. Og hvað er það sem ég á við með því? Jú, ef spurningin snýst um að tryggja einkaeignarétt á kostnað réttinda þeirra sem að þurfa að reiða sig á almannatryggingar, þeirra sem að standa verst að vígi í samfélaginu, að þá ber okkur að forgangsraða í þágu hinna síðarnefndu.

Auðvitað er það mjög slæmt ef að hinn almenni maður tapar eign sem hann á inni á bankabók. En það er enginn stórkostlegur harmur. Hitt er harmur ef draga þarf úr réttindum þeirra sem þurfa að reiða sig á almannatryggingar eða heilbrigðiskerfið. Þannig að þetta er barátta sem er háð í öllum heiminum núna, á milli fólks og fjármagns. Icesave-deilan er að nokkru leyti með þá deilu í brennidepli.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það að þessu leyti erum við hluti af umræðu og átökum sem eiga sér stað um heiminn allan. Þar hefur verið horft til Íslands og til þessa stóra deilumáls þar sem allur hinn stofnanalegi umheimur, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Evrópusambandið, auk Breta og Hollendinga, sameinaðist um að reyna að knýja okkur til undirgefni.“ 

Ekki deila á milli þjóðríkja

Ögmundur telur að mótmælaaldan sem braust út í kjölfar efnahagshrunsins hafi áhrif á mótmælaaðgerðir í Evrópu, þar með talið á Spáni.

„Ég hef skynjað allan tímann að lykillinn að því að sannfæra umheiminn [í Icesave-deilunni] er að gera honum grein fyrir því að þetta er ekki deila fyrst og fremst milli þjóðríkja, heldur deila milli viðhorfa, afstöðu, og hún er þvert á landamæri,“ segir Ögmundur Jónasson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert