6910 heimili fengu fjárhagsaðstoð

Árið 2010 fengu 6910 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og hafði heimilum sem þáðu slíkar greiðslur fjölgað um 916, eða um 15,3%, frá árinu áður og um  1881, eða um 37,4%, frá 2008.  

Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofunni. Frá árinu 2008 til 2010 jukust útgjöld sveitarfélaganna vegna fjárhagsaðstoðar um tæpar 1302 milljónir eða rúmlega 77%.

Fjölmennasti hópurinn árið 2010 sem fékk fjárhagsaðstoð var sem fyrr einstæðir barnlausir karlar (43,6% heimila) og einstæðar konur með börn (27,1% heimila). Á heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð árið 2010 bjuggu 11.468 einstaklingar eða 3,6% þjóðarinnar, þar af voru 3974 börn, 17 ára og yngri, eða 5% barna á þeim aldri. Árið 2008 bjuggu 9097 einstaklingar eða 2,8% þjóðarinnar á slíkum heimilum, þar af voru 3587 börn eða 4,5% barna. 

Árið 2010 nutu 8148 heimili félagslegar heimaþjónustu og hafði þeim fjölgað um 88 (1,1%) frá árinu á undan og um 284 (3,6%) frá árinu 2008. Tæplega fjögur af hverjum fimm þessara heimila voru heimili aldraðra eða 6493 (79,7%) og hafði þeim fjölgað um 474 (7,9%) frá árinu 2008.

Á þessum heimilum aldraðra bjó 8091 einstaklingur og jafngildir það 20,8% þeirra landsmanna sem eru 65 ára og eldri. Í Reykjavík naut fjórðungur (25%) 65 ára og eldri félagslegrar heimaþjónustu. Meðalfjöldi vinnustunda á heimili árið 2010 voru 114 (2,5 stundir á viku) og hafði meðalfjölda vinnustunda fækkað um 4 frá árinu á undan.

Árið 2010 naut 1771 barn dagvistar á einkaheimilum og hafði þeim fjölgað um 157 (9,7%) frá árinu á undan. Alls voru rúm 6% barna 0 til 5 ára í slíkri dagvistun árið 2010. Þar af voru tæp 6% allra barna á fyrsta ári og rúm 30% 1 árs barna, en það eru börn sem ekki hafa náð leikskólaaldri.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert