Um 20% fanga útlendingar

Fangelsið á Litla-Hrauni.
Fangelsið á Litla-Hrauni.

Þann 1. maí árið 2001 voru 8% fanga í íslenskum fangelsum erlendir en þetta hlutfall var 19% þann 1. maí í vor og 22% þann 13. maí.

Þetta kom fram í svari Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, á Alþingi í dag við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmanns Framsóknarflokks.

Fram kom í svari Ögmundar að 1. maí sl. voru 30 erlendir fangar í íslenskum fangelsum, þar af 11 sem ekki voru búsettir hér á landi. Þann 13. maí voru erlendir fangar 35, þar af 15 sem ekki voru búsettir hér.

Sagði Ögmundur, að erlendum föngum, sem dæmdir voru í óskilorðsbundið fangelsi, hefði byrjað að fjölga hér frá árinu 2001 til ársins 2008 en fjöldi þeirra hafi síðan verið nokkuð stöðugur.

Í svari Ögmundar við annarri fyrirspurn, frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, kom fram, að undirbúningi fyrir útboð á byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði sé um það bil að ljúka. Ekki sé þó búið að taka ákvörðun um fjármögnun byggingarinnar en þegar hún liggi fyrir muni Ríkiskaup auglýsa útboð á fangelsi. Áætlað sé að byggingartíminn gæti verið 2 ár. 

Ögmundur sagði, að danskri arkítektastofu hefði verið greiddar tæpar 5 milljónir fyrir frumhönnun fangelsisins en sú stofa geti ekki boðið í verkið sjálft vegna þess að hún stæði þá öðrum framar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert