„Mjög slæmt mál,“

Togarar að veiðum á Íslandsmiðum.
Togarar að veiðum á Íslandsmiðum. mbl.is/Árni Sæberg

„Við sjáum þetta sem mjög slæmt mál,“ sagði Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ um „minna kvótafrumvarpið“ sem varð að lögum í gær.

„Það er ekki verið endurskoða þetta með það fyrir augum að bæta starfsskilyrði og auka hagkvæmni atvinnugreinarinnar,“ sagði Friðrik.

Hann sagði að þótt ýmsu hafi verið breytt og annað fellt út úr upphaflegu frumvarpininu hafi það verið hroðvirknislega og illa unnið. Heildarmyndina skorti.

„Við horfum á þetta mál í samhengi við hitt frumvarpið (stærra kvótafrumvarpið sem ekki var afgreitt). Þarna er búið að fella út hluta af því sem er þar inni ennþá. Maður veit ekki hvernig þetta er hugsað,“ sagði Friðrik.

Hann sagði það standa upp úr að auka eigi strandveiðar. „Þar er verið að færa aflaheimildir til þeirra sem hafa selt og hirða af þeim sem hafa fengið á sig skerðingar til að byggja upp þorskstofninn,“ sagði Friðrik.

Hann sagði það hafa verið heldur til bóta að tonnunum sem fara eiga í þetta hafi verið fækkað, en hugsunin í frumvarpinu sé sú sama þrátt fyrir fækkun tonnanna.

„Þetta er fyrsta skrefið í því skemmdarverki sem verið er að vinna á fiskveiðistjórninni. Það er ekkert búið. Það er boðað að það eigi að koma aftur með þessa heildarendurskoðun á lögunum.“

Friðrik sagði erfitt að átta sig á því hversu varanlegar breytingarnar verða sem gerðar voru á frumvarpinu sem var samþykkt í gær. Mörg atriði sem þar var breytt standa óbreytt í stærra frumvarpinu sem bíður afgreiðslu.

Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ.
Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert