„Við þolum þetta ekki“

mbl.is/Friðrik Tryggvason

„Við þolum þetta ekki“, segir í fréttatilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar vegna boðaðs yfirvinnubanns flugmanna á föstudag.

„Enn einu sinni stendur ferðaþjónustan frammi fyrir því að hálaunahópur hóti að trufla flug sem skaðar ferðaþjónustuna um land allt nú á háönn en flugmenn hjá Icelandair hafa boðað yfirvinnubann 24. júní n.k. hafi samningar ekki tekist.

Ef ekki tekst að leysa málið fljótt er viðbúið að höggið verði stórt skarð í tekjur sumarsins hjá fyrirtækjum víða um land með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.   Háönnin á Íslandi er víða mjög stutt og góð nýting á þeim tíma er grundvöllur þess að fyrirtækin lifi árið af. 

Erlendar ferðaskrifstofur fylgjast vel með og spyrjast fyrir um ástandið og eru þessa dagana að taka ákvörðun um hvort þær hætti við að senda hópa hingað í sumar þar sem þær forðast almennt svæði þar sem hætta er á að fólk annaðhvort komist ekki á staðinn eða lokist inni.

Það er fullkomlega óásættanlegt að verkfallsaðgerðir fámennra hálaunahópa, sem telja sig eiga kröfu á meiri launahækkunum en almenningur í landinu, stórskaði heila atvinnugrein og þar með þjóðarbúið.

Við þolum þetta ekki,“ segir í tilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert