Leist vel á þessa stelpu og það var gagnkvæmt

Arnbjörg Sigtryggsdóttir og Lúðvík Geirsson
Arnbjörg Sigtryggsdóttir og Lúðvík Geirsson mbl.is

Það er ekki oft sem fólk nær því að halda upp á 70 ára brúðkaupsafmæli en hjónin Arnbjörg Sigtryggsdóttir og Lúðvík Geirsson tóku forskot á sæluna og kölluðu fjölskylduna, börnin þrjú, barnabörn og barnabarnabörn, saman hjá dótturinni á sunnudag í tilefni þess að þau gengu í hjónaband fyrir 70 árum. Brúðkaupsdagurinn er í dag og fyrsta verk dagsins verður að bjóða pottverjum í sundlaug Seltjarnarness upp á meðlæti með kaffinu.

Lúðvík er 97 ára og frá Akranesi en Arnbjörg, sem verður 93 ára í haust, er úr Mývatnssveit. Hins vegar lágu leiðir þeirra saman í Reykjavík. „Ég hafði tekið eftir þessari stelpu og mér leist vel á hana,“ rifjar Lúðvík upp en hann var húsasmiður í bænum.

„Það virðist hafa verið gagnkvæmt,“ heldur hann áfram og Arnbjörg tekur undir það. Lúðvík minnir á að fyrir 70 árum hafi íþróttafélögin í bænum reglulega verið með skemmtisamkomur og þau hafi hist á slíkri samkomu. Hann hafi unnið í ullarverksmiðjunni Framtíðinni við Frakkastíg og strax fallið fyrir þessari glæsilegu konu.

„Við giftum okkur svo á lengsta degi ársins, fórum bara til séra Bjarna (Jónssonar) og hann gaf okkur saman heima hjá sér en við bjuggum ekki saman áður.“Arnbjörg lærbrotnaði í fyrrasumar og hefur ekki náð sér almennilega. „Annars hefur okkur alltaf liðið vel, þetta hefur gengið vel hjá okkur, við höfum átt gott líf og góða heilsu,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert