Miklar hækkanir

Afurðastöðvaverð til bænda hækkar um 3,25 krónur á hvern lítra …
Afurðastöðvaverð til bænda hækkar um 3,25 krónur á hvern lítra mjólkur.

„Þetta eru miklar hækkanir og ekki hægt að rekja þær til launahækkana. Þetta eru svo háar prósentuhækkanir að það er ekki hægt að skýra þær með launahækkunum vegna kjarasamninganna,“ segir Henný Hinz, hagfræðingur hjá ASÍ, um hækkanir á mjólkurvörum 1. júlí.

„Menn hafa vonast eftir því að það yrði sátt um að halda aftur af verðhækkunum, þannig að hér gæti orðið þokkalegur stöðugleiki. Þetta er þvert á það,“ segir Henný. 

Verðlagsnefnd búvara hefur ákveðið að hækka heildsöluverð á mjólk og mjólkurvörum um 4,25% um næstu mánaðamót. Smjör hækkar enn meira eða um 6,7% og mjólkurduft til iðnaðar um 6%.

Henný segir að þessar fregnir af verðhækkun á mjólkurvörum ýti undir verðbólguvæntingar, sem sé áhyggjuefni.

„Ein af forsendum þess að hægt sé að hafa hér hóflega verðbólgu og tryggja að kjarasamningarnir skili einhverju, er samstaða um að menn fari ekki þessa leið heldur leiti annarra leiða. það hefur því miður ekki gengið allt of vel,“ segir hún. 

ASÍ og Samtök atvinnulífsins staðfestu í gær gildistíma nýju kjarasamninganna til næstu þriggja ára. Almennar launahækkanir á öllu því tímabili verða 11,4% en lágmarkslaun hækka meiri eða 23,6%.

Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs fyrir júnímánuð næstkomandi mánudag. Verðbólgumælingar á seinustu mánuðum hafa sýnt að verðbólgan hefur farið hratt upp á við.  Henný segir ekki útlit fyrir að breyting verði þar á í þessum mánuði. Hækkanirnar skerði kaupmátt launa og þetta séu ekki þær forsendur sem menn lögðu upp með við gerð kjarasamninganna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert