Sex flug felld niður

Ljósmynd/Sigurður Bogi Sævarsson

Icelandair hefur fellt niður sex flug félagsins á sunnudag, þann 26. júní, vegna aðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna, sem hófust klukkan 14 í dag.

Viðræður flugmanna og Icelandair hófust í húsi ríkissáttasemjara kl. 11 í morgun og standa þær enn yfir skv. upplýsingum úr Karphúsinu.  

Laun flugmanna langt yfir meðallaunum í landinu

Samkvæmt launataxta flugmanna fara launin og aðrar launagreiðslur frá því að vera um 600.000 kr. upp í 1.450.000 kr. á mánuði.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru laun flugmanna hjá Icelandair langt yfir meðallaunum í landinu og dæmi eru um að laun flugstjóra séu sambærleg launum forstjóra og fari langt yfir laun forsætisráðherra.

Byrjendalaun flugmanns hjá félaginu, eru um 500.000 krónur. Ofan á það bætast svo við önnur laun, yfirvinna og aðrar greiðslur, og skv. útreikningum má gera ráð fyrir því að þau nemi um 100.000 krónum.

Þá eru dagpeningar enn óreiknaðir, en þar má gera ráð fyrir um 150.000 kr. til viðbótar. Samtals gerir þetta um 750.000 krónur, en hafa ber í huga að dagpeningar eru ekki skilgreindir sem laun, heldur eiga þeir að duga fyrir útlögðum kostnaði.

Ef skoðuð eru laun flugmanns með 10 ára starfsaldur eru grunnlaun skv. launataxta um 650.000 krónur. Algengt er að önnur laun séu um 150.000 kr. að jafnaði og dagpeningar um 200.000 krónur. Í heildina gerir þetta um eina milljón til útborgunar.

Eftir 25 ára starf hjá félaginu getur flugstjóri verið með um 1.150.000 kr. í mánaðarlaun skv. taxta, önnur laun um 300.000 kr., ofan á það bætast svo dagpeningar sem eru um 250.000 krónur. Samtals gerir þetta um 1.700.000 krónur. Til samburðar má geta þess að laun Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra eru um 1.100.000 kr.

Sex flug til viðbótar felld niður á mánudag náist ekki samningar

Í tilkynningu frá Icelandair kemur fram að náist ekki samningar muni fyrirsjáanlega þurfa að fella niður samtals 6 flug til viðbótar á mánudag og verður það gert með sólarhrings fyrirvara.

Ákvörðun um að fella niður flugin með þessum fyrirvara er tekin til þess að eyða óvissu og gefa farþegum tækifæri á því að gera nauðsynlegar ráðstafanir.  Í heild eru um 1500 ferðamenn bókaðir á þau 12 flug sem um er að ræða og er upplýsingum komið til þeirra um stöðuna m.a. með textaskilaboðum og tölvupósti.

„Þó svo við vonumst til þess að samningar náist í yfirstandandi viðræðum og ekki komi til frekari trufalana á flugi Icelandair, þá teljum við rétt að gefa strax upp hvaða flug það eru sem við vitum að muni þurfa að fella niður, ef deilan leysist ekki. Við sjáum ekki fyrir að frekari truflun verði á flugi Icelandair næstu sex dagana vegna verkfallsins, eða út júnímánuð, en við hvetjum viðskiptavini til þess að fylgjast vel með," segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í tilkynningu.

„Tímasetning og eðli þessara verkfallsaðgerða byggir á því að nú er háannatími í flugi og ferðaþjónustu og greinin mjög viðkvæm fyrir allri umræðu um röskun fyrir ferðamenn vegna verkfallsaðgerða. Það eru Icelandair mikil vonbrigði að til þeirra sé gripið, þrátt fyrir að Icelandair hafi boðið FÍA sambærilegar launahækkanir og aðrir í samfélaginu hafa samið um að undanförnu, þar á meðal aðrir starfshópar Icelandair," segir í tilkynningu.

Þau flug sem felld hafa verið niður eru eftirfarandi:

Sunnudagur 26. júní kl. 01:00: FI556 til Brussel frá Keflavík
Sunnudagur 26. júní kl. 07:50: FI557 til Keflavíkur frá Brussel

Sunnudagur 26. júní kl. 07:50: FI 306 til Stokkhólms frá Keflavík
Sunnudagur 26. júní kl. 14:10: FI 307 til Keflavíkur frá Stokkhólmi

Sunnudagur 26. júní kl. 07:50: FI318 til Osló frá Keflavík
Sunnudagur 26. júní kl. 14:45: FI319 til Keflavíkur frá Osló

Þau flug sem fella þarf niður með 24 klukkustunda fyrirvara ef samningar nást ekki eru eftirfarandi:

Mánudagur 27. júní kl. 01:05: FI540 til Parísar frá Keflavík
Mánudagur 27. júní kl. 08:00: FI 541 til Keflavíkur frá París

Mánudagur 27. júní kl. 00:30: FI384 til Gautaborgar frá Keflavík
Mánudagur 27. júní kl. 06:35: FI385 til Keflavíkur frá Gautaborg

Mánudagur 27. júní kl. 01:00: FI 202 til Kaupmannahafnar frá Keflavík
Mánudagur 27. júní kl. 07:50: FI 201 til Keflavíkur frá Kaupmannahöfn   

Icelandair mun eftir fremsta megni reyna að leysa úr þeim vanda sem hugsanleg niðurfelling flugsins skapar viðskiptavinum m.a. með því að flytja þá yfir á flug annarra flugfélaga eins og hægt er, einnig að færa farþega á önnur flug Icelandair til og frá þessum áfangastöðum ef það er unnt, eða breyta farmiðum með öðrum hætti. Þeir sem þurfa að hætta við ferð sína munu fá endurgreitt, segir í tilkynningu.

Friðrik Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert