Fær ekki bætur fyrir að hjálpa vinnufélaga

Álver Norðuráls á Grundartanga.
Álver Norðuráls á Grundartanga. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Norðurál og tryggingafélagið Sjóvá af bótakröfum manns, sem meiddist í baki þegar hann hjálpaði vinnufélaga, sem hafði lent í óhappi.

Maðurinn var við störf í álveri Norðuráls á Grundartanga í september 2005 þegar svonefnd bakskautsklemma féll yfir fætur konu, sem einnig starfaði í álverinu. Manninum og öðrum manni tókst að lyfta klemmunni af konunni en við það tognaði maðurinn í baki og hlaut varanlegan skaða af.

Fram kemur í dómnum, að samkvæmt upplýsingum frá Norðuráli hafi  bakskautsklemman vegið 620 kíló.

Tryggingafélagið neitaði að greiða manninum bætur úr launþegatryggingu Norðuráls og þá niðurstöðu staðfesti úrskurðar­nefnd tryggingamála. Sagði nefndin að  meiðsl mannsins yrðu ekki rakin til skyndilegs utanaðkomandi atburðar og skyldi líkamstjón því ekki bætast úr slysatryggingunni.

Maðurinn höfðaði mál og krafðist bóta frá Norðuráli og Sjóvá. Héraðsdómur segir í niðurstöðu sinni að ekki verði fallist á, að það hafi verið í eðlilegum tengslum við starf mannsins hjá Norðuráli að aðstoða konuna. Ósannað sé að maðurinn hafi brugðist við samkvæmt fyrirmælum verkstjóra eða hópstjóra og því liggi því ekki annað fyrir en að hann hafi sjálfur tekið þá ákvörðun að bregðast við og hjálpa samstarfskonu sinni.

Hafi maðurinn ekki sýnt fram á að Norðurál sem vinnuveitandi beri ábyrgð á tjóni hans og ekki heldur sýnt fram á að hann hafi þurft að bregðast við vegna þess að hagsmunir Norðuráls voru í húfi. Var Norðurál því sýknað af bótakröfunni.

Þá fellst dómurinn ekki á að maðurinn eigi rétt til greiðslu úr launþegatryggingu Norðuráls hjá Sjóvá. Hann hafi orðið fyrir meiðslunum þegar hann, samkvæmt eigin ákvörðun, brást við til hjálpar samstarfskonu sinni og ekki sé hægt að rekja meiðslin til skyndilegs utanaðkomandi atburðar, sem sé skilyrði samkvæmt  ákvæði vátryggingarskilmálanna.

Málskostnaður var felldur niður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert