Unnið allan sólarhringinn

Brúin yfir Múlakvísl gaf sig undan straumþunganum í gærmorgun.
Brúin yfir Múlakvísl gaf sig undan straumþunganum í gærmorgun. mbl.is/Jónas Erlendsson

Gert er ráð fyrir að unnið verði allan sólarhringinn við smíði bráðbirgðabrúar yfir Múlakvísl.  „Það verður unnið eins hratt og mögulegt er og aðstæður leyfa,“ segir Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri um byggingu brúarinna.

„Þarna verða brúarsmiðir með vinnuflokka og unnið verður á svipaðan hátt og áður hefur verið gert við svipaðar aðstæður,“ segir Hreinn.

Hann segir að ekki sé búið að skipuleggja vinnutíma vinnuflokkanna. „En það verður unnið meira eða minna allan sólarhringinn.“

Að sögn Hreins rekur Vegagerðin tvo brúarvinnuflokka sem hafa verið að störfum í allan vetur og voru þeir komnir í sumarfrí. „Þeir voru að byrja í sínu fríi og það þurfti bara að kalla þá úr fríum.“

„Í dag er verið að vinna með jarðvinnutækjum að því að laga veginn að bráðabirgðabrúarstæðinu og á morgun á allt að vera tilbúið til að reka staura undir brúna,“ segir Hreinn.

Hann segir að brúin verði  staðsett rétt ofan við brúna, sem fór í gær, hún verði tengd inn á endann á gamla hringveginum, sem liggur þar skammt fyrir ofan. Garður standi út í fljótið austan megin og þar muni brúin tengjast inn á.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert