Einkaframkvæmd mikið dýrari

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson Morgunblaðið/Eggert

„Ekki er um það deilt að einkaframkvæmd, sem felur í sér að einkaaðili reisi sérhæft húsnæði og leigi síðan opinberum aðilum, er miklu dýrari en að bjóða út hönnun og smíði fangelsis sem yrði frá fyrsta degi í eigu hins opinbera,“ segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, í nýjum pistli sínum um fjármögnun byggingu nýs fangelsis. Ögmundur telur að byggingahraði yrði sá sami hvor leiðin sem farin verði.

Ráðherra bendir á að einkaframkvæmdaleiðin hafi á árum áður verið ráðandi hjá hinu opinbera vegna þess að það var samkvæmt pólitískri trúarsetningu þess tíma. „Ríkið minnkaði skuldir sínar með því að selja eignir en gerði á sama tíma ófrávíkjanlega leigusamninga til ára og áratuga. Breytingin var sú að bókhaldið leit betur út á pappír en kostaði skattgreiðendur margfalt meira.“

Þá segir Ögmundur að tilraunir til að ná fram hallalausum fjárlögum að forskrift Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi valdið því að ekki hafi verið horfið frá þessari leið. „Ég hef hins vegar haldið því fram að þegar upp er staðið yrði fjárstreymið úr ríkissjóði með svipuðum hætti með einkavæðingarleiðinni nema mun meira.“

Hann segir að byggingaraðilinn myndi, líkt og ríkið, þurfa að taka lán en af láninu gæti hann ekki byrjað að greiða fyrr en leigugreiðslur hæfust frá ríkinu. „Vextir þessa aðila yrðu að öllum líkindum hærri en ef ríkið tæki lánið beint og arðsemiskrafa fjárfestisins bættist þar einnig ofan á. Þetta gæti í þessu tilviki verið munur upp á hálfan milljarð. Byggingarhraðinn ætti hins vegar að geta verið sá sami hvor leiðin sem farin yrði.“

Að endingu segist Ögmundur tala fyrir kredduleysi og hagkvæmissjónarmiðum með sjónarmiðum sínum um að ríkið eigi að byggja og eiga fangelsið frá fyrsta degi.

Vefsvæði Ögmundar

Fangelsismál föst í ríkisstjórn

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka