Fréttaskýring: Telur Breivik ekki vera geðveikan

Anders Behring Breivik.
Anders Behring Breivik. Reuters/Jon-Are Berg-Jacobsen/Aftenposten via Scanpix

Skipta má þeim sem fremja fjöldamorð eins og þau sem framin voru í Noregi síðastliðinn föstudag í tvo hópa að sögn Gísla H. Guðjónssonar, réttarsálfræðings og prófessors við King's College í London.

Annars vegar þá sem vilja gera sjálfa sig að fórnarlömbum, drepa aðra og drepa síðan sig sjálfa eða láta lögreglu drepa sig. Gísli segir að það sem vaki fyrir slíkum einstaklingum sé yfirleitt það að þeir séu ósáttir við lífið og ósáttir við aðra. Þeir vilji hefna sín á öðrum og síðan deyja sjálfir.

„Svo eru það þeir sem skipa hinn hópinn sem líta á sig sem bjargvætti og vilja fá athygli. Þeir vilja ekki deyja. Þeir vilja lifa til þess að sjá árangurinn af því sem þeir gerðu,“ segir Gísli. Hann segir að Anders Behring Breivik, sem framdi voðaverkin í Noregi, falli inn í þennan hóp. Hann hafi ákveðin brengluð viðhorf um heiminn. Telji sig vera einhvers konar bjargvætt Evrópu gegn ógn sem stafi af múslimum og að norski Verkamannaflokkurinn hafi brugðist í þeim efnum.

Vildi sem mesta athygli

„Þessar skoðanir hans eru mjög ákveðnar og þær taka eiginlega yfir hans persónuleika. Það er ekkert annað sem skiptir máli. Það sem síðan kemur inn í þetta er narsisismi [sjálfsupphafningar-persónuleikaröskun]. Hann telur sig vita hvað sé fyrir bestu, hann hafi völd til að gera það og hafi einhvern veginn betri yfirsýn en aðrir,“ segir Gísli. Það sé þó ekki nóg heldur vilji hann vekja athygli á sér og fá einhvers konar heiður fyrir það sem hann gerði. Þá telji hann sig hafa gert það eina rétta í stöðunni.

„Það er ekki nóg að fá bara athygli heldur mikla athygli. Hann vildi greinilega gera sem mest, drepa sem flesta til þess að fá sem mesta athygli,“ segir Gísli. Þá snúist slík mál yfirleitt um ákveðin völd, þeir sem um ræðir geti ákveðið hverjir fái að lifa og hverjir skuli deyja.

Haft hefur verið eftir Breivik að hann hafi meðal annars verið búinn að reyna að vinna sjónarmiðum sínum fylgis innan stjórnmálahreyfingar, þá líklega átt við norska Framfaraflokkinn, en án árangurs. Gísli segir að gjarnan sé reynt að réttlæta og um leið afsaka slíkar gerðir með því að allt annað hafi verið fullreynt. Með því sé reynt að réttlæta gerðirnar bæði fyrir viðkomandi sjálfum og öðrum.

Vissi hvað hann var að gera

„Nú hef ég ekki skoðað þennan mann en miðað við þær upplýsingar sem komið hafa fram er ekkert sem bendir til þess að um geðveiki sé að ræða. Þessi maður hefur fulla stjórn á sér, hann veit hvað hann er að gera og hvað hann ætlar sér og er mjög ánægður með afleiðingarnar. Þetta eru brenglaðar hugsanir og ákveðin persónuleikaröskun,“segir Gísli.

Hann segir að inn í þetta spili sjálfsupphafningin. Breivik trúi því að hann hafi verið að bjarga Evrópu og í því fái hann ákveðna umbun líkt og sjálfsmorðssprengjufólk sem trúir því að það fari til himna.

Gísli Guðjónsson.
Gísli Guðjónsson.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert