Ríkisstjórnarfundir teknir upp

Þráinn Bertelsson
Þráinn Bertelsson

Þráinn Bertelsson greiddi atkvæði gegn því að nýtt stjórnarfrumvarp um endurskoðun á lögum um stjórnarráðið væri afgreitt úr allsherjarnefnd en segir þó miklu meira í frumvarpinu sem allir styðja en atriði sem ágreiningur standi um.

Hann segir að eitt og annað hefði mátt hugsa betur og vill sjá meiri samstöðu um frumvarpið áður en það fer inn á þing en segist sérstaklega hafa sett það fyrir sig að ekki náðist samstaða um það í meirihlutanum að setja í lögin að ríkisstjórnarfundir yrðu teknir upp.

„Það var mikið spjallað um fundargerðir og hvaða fyrirmæli ættu að fylgja fundargerðum, hvað ætti að vera leynilegt og svo framvegis, en ég kann bara eina aðferð til að forða fólki frá því að leyna upplýsingum og það er sú aðferð sem er notuð á Alþingi, að birta hvert einasta orð sem sagt er, við tækifæri,“ segir hann.

Hann segir sig og aðra hafa fullan skilning á því að margt sem talað sé um í ríkisstjórn eigi ekki endilega erindi í fjölmiðla um leið og var fyrir sína parta reiðubúinn til að gera upptökurnar ekki opinberar fyrr en að þrjátíu árum liðnum.

Hann segir mikilvægt að vanda vel til vinnunnar nú, lögin séu til framtíðar.

„Mér finnst frumvarpið ekki ennþá vera orðið nægilega vel unnið í nefndinni og ég vildi reyna til þrautar að ná eins breiðri samstöðu um þetta frumvarp og hægt er, því það er verið að setja lög til framtíðar, það er ekki bara verið að setja lög um ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur. Því ég útiloka ekki að Sjálfstæðisflokkur komist til valda á næstu þrjátíu árum og þessi lög ná yfir hvaða ríkisstjórn sem situr, hvaða flokkar svo sem eiga sæti í henni. Þannig að mér fannst að það hefði mátt seilast lengra til að ná meiri samstöðu í nefndinni,“ segir Þráinn og vísar til þess að Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Hreyfingin hefðu allir verið á móti frumvarpinu í núverandi mynd.

Hann segist ekki halda að stórvægilegar breytingar þurfi til að hægt sé að ná sáttum um frumvarpið. „Ég held að það sé hægt að ná sátt um hina ólíklegustu hluti og hina ólíkustu hluti og býsna víðtækri samstöðu. Og ég held að það hafi ekki verið reynt til þrautar. Það hefur lengi mátt lagfæra lagasetningu um stjórnarráð Íslands og hvort við bíðum einu árinu lengur eða skemmur eftir því skiptir engu einasta máli. Það sem skiptir máli er að sú lagasetning sé skynsamleg og sem flestum í geð, því við þurfum öll að lifa við hana.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert