Gæti þurft að hætta við kaupin

Huang Nubo
Huang Nubo mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Kínverski kaupsýslumaðurinn Huang Nubo, sem hefur keypt jörðina Grímsstaði á Fjöllum, með fyrirvara um samþykki kínverskra og íslenskra stjórnvalda, segir að svo geti farið að hann neyðist til þess að hætta við kaupin vegna þeirra deilna sem þau hafa valdið.

Í frétt Reuters-fréttastofunnar kemur fram að kaupin hafi vakið upp tortryggni um að þau séu hluti af útþenslu kínverskra yfirvalda. Huang segir við Reuters, að svo geti farið að kínversk stjórnvöld biðji hann um að falla frá kaupunum til þess að valda ekki vandræðum en hann hefur sótt um heimild til kaupanna til kínverskra yfirvalda.

Segir Huang, að ekki sé loku fyrir það skotið að stjórnvöld biðji hann um að spilla ekki samskiptum Kína og Íslands með þessu og þá muni hann einfaldlega gefast upp.

Hann segir að stjórnvöld í Peking geti tekið sér allt að sex mánuði til að ákveða hvort þau leggi blessun sína yfir kaupin.

Reuters hefur eftir Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra að skoða verði kaupin gaumgæfilega þar sem um sölu á svo stóru landsvæði til útlendings er að ræða og eins vakni spurningar um eignarhald á náttúruauðlindum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert