Í samræmi við stefnu Kínverja

Grímsstaðir á Fjöllum.
Grímsstaðir á Fjöllum.

Kaup kínverska kaupsýslumannsins Huang Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum ríma vel við stefnu kínverskra stjórnvalda að fjárfesta erlendis í landi, hráefnum og þekkingu segir Jonathan Holslag sérfræðingur hjá stofnun í Brussel sem helgar sig rannsóknum á Kína.

Þetta segir hann í viðtali við þýska blaðið Deutsche Welle. Í greininni er fjallað ítarlega um áhuga Huang á að fjárfesta á Íslandi, en hann hefur lýst sig tilbúinn til að fjárfesta fyrir 10 milljarða króna í ferðaþjónustu á Íslandi.

Vitnað er í viðtal sem fréttastofa Reuters átti við Huang þar sem hann segir að hugsanlegt sé að ekkert verði úr þessum fjárfestingum m.a. vegna þess að stjórnvöld í Kína muni ekki heimila þær. Haft er eftir honum að kínversk stjórnvöld vilji ekki stofna til illinda með fjárfestingum erlendis. Þeim sé umhugað um að spilla ekki góðum samskiptum Íslands og Kína. Þetta kunni að verða til þess að hann hætti við áformin.

Í greininni í Deutsche Welle kemur einnig fram að efasemdir séu um fjárfestingar Huang á Íslandi. Bent er á að Grímsstaðir á Fjöllum nái yfir 0,3% alls lands á Íslandi. Þetta hlutfall sé svipað og allt það land sem fer undir Hamborg í Þýskalandi.

Rætt er við Jón Þórisson arkitekt sem gagnrýnt hefur harðlega áform kanadíska fyrirtækisins Magma að fjárfesta í orkuauðlindum á Íslandi. Jón spyr hvort landakaupunum muni fylgja einhver pólitísk áhrif og hvort bændur á Íslandi verði á endanum leiguliðar í sínu eigin landi.

Greinin í Deutsche Welle

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert