Skipulagsbreytingar í HR

Háskólinn í Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík. mbl.is/Ernir

Þrjú störf forstöðumanna við Háskólann í Reykjavík hafa verið lögð niður vegna skipulagsbreytinga. Í þeirra stað verða stofnuð tvö ný störf og verða þau auglýst laus til umsóknar nú um helgina.

„Þetta eru skipulagsbreytingar á stoðsviðum, það er sviðum sem styðja við akademíska starfið - kennslu og rannsóknir - með það að markmiði að auka skilvirkni,“ sagði Ari Kristinn Jónsson, rektor HR.

Hann sagði að vegna breytinganna hefðu þrjú störf forstöðumanna verið lögð niður, það er starf forstöðumanns almannatengsla, forstöðumanns alþjóðasviðs og forstöðumanns markaðssviðs.

„Nú um helgina verður auglýst nýtt starf forstöðumanns samskiptasviðs og nýtt starf sérfræðings á alþjóðasviði,“ sagði Ari Kristinn. Hann sagði töluverða breytingu verða á eðli starfanna miðað við störf fráfarandi forstöðumanna. Þessar breytingar séu eðlilegur hluti af þróun innra skipulags skólans til þess að það virki sem best.

Aðspurður sagði Ari Kristinn að breytingarnar væru ekki gerðar vegna rekstrarhagræðingar heldur til þess að stoðsviðin virkuðu á skilvirkari hátt.

Ari Kristinn hélt óformlegan starfsmannafund fyrir viku og kynnti þar meðal annars skipulagsbreytingarnar. Hann sagði að útskýra þyrfti slíkar breytingar mjög vel svo fólk skildi hvað væri að gerast.

„Breytingar hafa áhrif á einstaklinga og því þarf að koma því mjög vel til skila. Annars var líka verið að koma því til skila að nemendum hefur fjölgað hjá okkur og starfsemin fer mjög vel af stað á þessu skólaári,“ sagði Ari Kristinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert