Nýr staðgengill borgarstjóra

Jón Gnarr, borgarstjóri.
Jón Gnarr, borgarstjóri. mbl.is/Sigurgeir

Borgarráð hefur samþykkt að stofna nýtt embætti borgarritara. Hann verður staðgengill borgarstjóra en skrifstofustjóri borgarstjóra hefur gegnt því starfi. Borgarritari mun bera ábyrgð á miðlægri stjórnsýslu og stoðþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar.

Frá þessu segir á vefsíðu Reykjavíkurborgar.

Þar segir að borgarritari muni hafa aðsetur á skrifstofu borgarstjóra sem mun heyra undir embætti hans, en að auki munu borgarhagfræðingur, fjármálaskrifstofa, mannauðsskrifstofa, mannréttindaskrifstofa, innkaupaskrifstofa, upplýsingatæknimiðstöð og þjónustuskrifstofa heyra undir embættið.

Einnig mun borgarritari bera ábyrgð á rekstri Ráðhúss og Höfðatorgs.

Eitt fyrsta verkefni borgarritara verður að skilgreina og endurskipuleggja miðlæga þjónustu Reykjavíkurborgar til að einfalda hana og styrkja með það að markmiði að fækka skrifstofum og ná fram hagræðingu í rekstri.

Regína Ásvaldsdóttir, skrifstofustjóri borgarstjóra, hefur verið staðgengill borgarstjóra í tæpt ár. Hún hefur sagt upp störfum og tekur við nýju starfi framkvæmdastjóra þekkingarseturs um samfélagslega ábyrgð í október næstkomandi.

Staða borgarritara verður auglýst nú um helgina, en Regína mun gegna starfi borgarritara þar til ráðið hefur verið í stöðuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert