„Stórskotaliðsárásir forsetans“

Forsetinn og ráðherrar ríkisstjórnarinnar halda áfram að ræðast við í …
Forsetinn og ráðherrar ríkisstjórnarinnar halda áfram að ræðast við í gegnum fjölmiðla. Kristinn Ingvarsson

„Mér fannst þetta ósanngjarnt gagnvart Steingrími,“ sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, í viðtali við morgunútvarp Rásar 2 í morgun, aðspurður um ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um fjármálaráðherra og Icesave-deiluna. Ummælin væru „stórskotaliðsárásir forsetans“.

Ólafur Ragnar lét umrædd ummæli falla í viðtali við Bylguna í gær en þar kvaðst forsetinn ekki hafa haft frumkvæði að því að Icesave-deilan lenti á hans borði. Hefur viðtalið verið gert aðgengilegt á vef forsetaembættisins. Þá kvaðst forsetinn einungis hafa verið að svara ummælum fjármálaráðherra um deiluna þegar hann hafi gagnrýnt framgöngu ríkisstjórnarinnar í málinu í sjónvarpsviðtölum síðustu helgi.

Arfur frá Alþýðubandalaginu?

Össur sagði orðaskipti forsetans og fjármálaráðherra bera merki innanflokksátaka í Alþýðubandalaginu fyrir 30 árum. „Má Steingrímur J. Sigfússon ekki hafa skoðun á forsetanum? Má fjármálaráðherra, sem er laminn dag hvern fyrir afstöðu sína í Icesave-málinu, ekki bera hönd fyrir höfuð sér?“ spurði Össur og kom samráðherra sínum til varnar.

„Forsetinn á að vera yfir þetta hafinn,“ sagði Össur.

Þegar utanríkisráðherra var spurður hvort hann ætlaði að taka málið upp á fundi með forsetanum svaraði hann svo: „Ég er nú bara ráðherraræfill á plani... Mér fannst þetta ósanngjarnt gagnvart Steingrími.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert