Forsetinn: Valdið til fólksins

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ræðir við Karl Blöndal, aðstoðarritstjóra …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ræðir við Karl Blöndal, aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins, í fyrra. Kristinn Ingvarsson

 „Reynsla okkar sjálfra, umrótið í samtímanum, ólgandi vilji fólksins víða um heim, einkum yngri kynslóða – allt ber þetta að sama brunni: þróun lýðræðis kallar nú á síaukna og beina þátttöku fólks í ákvörðunum sem skipta miklu,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, um afstöðu sína til beins lýðræðis.

Forsetinn lét þessi orð falla í ræðu á ráðstefnu um lýðræði í Ráðhúsinu í gær en eins og komið hefur fram á fréttavef Morgunblaðsins kom Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra þar forsetanum til varnar vegna þeirrar ákvörðunar Ólafs Ragnars að vísa Icesave-deilunni tvívegis í þjóðaratkvæðagreiðslu. Má nálgast ræðu forseta hér.

Forsetinn segir að útfærslan á beinu lýðræði kalli á yfirvegaða umræðu.  

„Þar eru margar leiðir færar og mikilvægt að gaumgæfa vel hina ýmsu kosti,“ sagði forsetinn og fagnaði ráðstefnuhaldinu í Reykjavík.

„Því er þessi ráðstefna í senn kærkomin og tímabær og ég óska ykkur velgengni á frjóum akri þar sem allir unnendur lýðræðis vænta góðrar uppskeru.“

Ítrekaði ummæli um fjölmiðla

Athygli vekur að forsetinn kaus að lesa upp langa hluta úr ræðu sem hann flutti um lýðræði fyrir tæpum áratug, nánar tiltekið 15. apríl 2002.

Vék forsetinn þá að eignarhaldi fjölmiðla en þetta var um tveimur árum fyrir deiluna um fjölmiðlafrumvarpið svokallaða, sem Ólafur Ragnar kaus að leggja í dóm þjóðarinnar.

„Eignarhaldi á fjölmiðlum er þannig háttað að almenn lýðræðisleg lögmál hafa lítil áhrif á val stjórnenda og starfshætti og því verður í framtíðinni að treysta á lýðræðislega ábyrgðartilfinningu, siðferðiskennd og fagleg vinnubrögð þeirra sem á fjölmiðlunum starfa. Vaxandi alþjóðavæðing og upplýsingastreymi víða að úr heiminum mun í þessum efnum gera norræna fjölmiðla æ meðvitaðri um áhrifamikið hlutverk sitt,“ sagði forsetinn og ítrekaði þar með orð sín frá 2002. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert