Auglýst eftir saksóknurum

Sigríður Friðjónsdóttir er ríkissaksóknari
Sigríður Friðjónsdóttir er ríkissaksóknari mbl.is/Eggert Jóhannesson

Innanríkisráðuneytið auglýsir embætti tveggja saksóknara hjá embætti ríkissaksóknara laus til umsóknar. Miðað er við að innanríkisráðherra skipi í embættin frá og með 1. nóvember 2011.

Saksóknarar eru ríkissaksóknara til aðstoðar en ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds. Saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara er skipaður til fimm ára og skal fullnægja sömu lagaskilyrðum og héraðsdómari til skipunar í embætti.

Ráðuneytið kann að spyrja um fjárhag umsækjenda

Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um, eftir því sem við á: 1) menntun og hvort umsækjandi hafi í námi sínu sérstaklega lagt sig eftir refsirétti og/eða sakamálaréttarfari, 2) reynslu af sakamálaréttarfari, saksókn mála og/eða annarri meðferð ákæruvalds, 3) reynslu af dómstörfum, 4) reynslu af lögmannsstörfum, 5) reynslu af stjórnsýslustörfum, 6) reynslu af fræðistörfum, 7) reynslu af öðrum aukastörfum sem nýtist í embætti saksóknara, 8) upplýsingar um almenna og sérstaka starfshæfni, 9) upplýsingar sem snúa að andlegu atgervi, áræði, mannlegum samskiptum og sjálfstæði, 10) upplýsingar um þrjá núverandi eða fyrrverandi samstarfsmenn/yfirmenn sem geta veitt upplýsingar um störf, samstarfshæfni og aðra hæfni umsækjanda og 11) aðrar upplýsingar sem varpað geta ljósi á faglega eiginleika og færni umsækjanda sem máli skipta fyrir störf saksóknara.

Til þess að hraða afgreiðslu umsókna og bréfaskiptum skulu umsækjendur gefa upp tölvupóstfang sem notað verður til að eiga öll samskipti við umsækjendur. Taka skal fram að ráðuneytið kann að óska eftir upplýsingum frá umsækjendum um fjárhag þeirra og hagsmunatengsl sem kunna að hafa áhrif á almennt og sérstakt hæfi saksóknara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert