Góð aðsókn að sjávarútvegssýningunni

Góð aðsókn hefur verið að sjávarútvegssýningunni í Fífunni í Kópavogi í dag. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, opnaði sýninguna sem stendur fram á laugardag.

Rúmlega 12 þúsund manns komu á síðustu sjávarútvegssýningu sem haldin var árið 2008, en sýningar af þessu tagi hafa verið haldnar með reglulegu millibili frá árinu 1984.

Íslenska sjávarútvegssýningin, sem kallast Icefish, er ein stærsta sjávarútvegssýningin í Norður-Evrópu. Sýningin nær til allra þátta í fiskveiðum í atvinnuskyni, allt frá veiðum og fiskileit til vinnslu og pökkunar, markaðssetningar og dreifingar á fullunnum afurðum. Einnig kynna ýmsir birgjar og þjónustuaðilar vörur sínar og þjónustu. Megináhersla er á vélar og tæki og hugbúnað þeim tengdan.

Í ár verður það nýmæli að samhliða sýningunni er haldin málstofa um umhverfismerkingar og rekjanleika með vinnuheitinu „Áætlun um ábyrgar fiskveiðar Íslendinga“. Hún er skipulögð af Íslandsstofu í samstarfi við Fiskifélag Íslands.

Sýningin stendur til kl. 18.00 í dag og á morgun og frá kl. 10.00 til 16.00 á laugardag.


Margir hafa skoðað sjávarútvegssýninguna í dag.
Margir hafa skoðað sjávarútvegssýninguna í dag. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert