Fréttaskýring: Launin hífð upp með yfirvinnu og álagi

Lögreglumenn hafa lengi barist árangurslaust fyrir verulegri hækkun grunnlauna sinna. Árið 2008 voru samningar framlengdir með krónutöluhækkun launa og ári síðar kolfelldu lögreglumenn samninga með yfir 90% greiddra atkvæða. Það leiddi til þess að gerðardómur var skipaður sem kvað upp úrskurð um laun lögreglumanna.

Með gerðardómnum sl. föstudag voru lögreglumönnum færðar sambærilegar hækkanir og samist hefur um við aðra á umliðnum mánuðum. Enn á ný var uppstokkun á launakerfinu frestað.

283 þús. kr. dagvinnulaun

Skv. launayfirliti fjármálaráðuneytisins voru dagvinnulaun lögreglumanna að meðaltali 283.678 kr. á mánuði í fyrra. Þetta eru nokkru lægri dagvinnulaun en t.a.m. tollvarða, sem lögreglumenn bera sig gjarnan saman við en þau voru 285.777 kr. Meðaldagvinnulaun í BSRB voru 254.036 kr. Hlutur dagvinnulauna lögreglumanna hefur minnkað á umliðnum árum í samanburði við ýmsar aðrar stéttir Heildarlaun lögreglumanna voru hins vegar að meðaltali 512.788 kr. í fyrra. Samanburður á meðaltali heildarlauna á milli starfsstétta er mjög vandmeðfarinn og getur verið villandi.

Forsvarsmenn Landssambands lögreglumanna benda á að ef bera eigi saman heildarlaun lögreglumanna við aðrar starfsstéttir verði að meta þann fjölda vinnustunda sem býr að baki. Laun lögreglumanna séu að stórum hluta vegna yfirvinnu og álagsgreiðslna, enda vinna lögreglumenn sólarhringsvaktir.

Á yfirliti fjármálaráðuneytisins má sjá að yfirvinnulaun lögreglumanna voru að meðaltali rúmar 109 þús. kr. á mánuði í fyrra og vaktaálagið tæpar 60 þúsund kr. Sé litið er á kynjaskiptinguna kemur í ljós að heildarlaun lögreglukvenna voru að meðaltali 445 þús. kr. á mánuði en meðalheildarlaun karlanna voru rúmlega 521 þús. kr.

,,Þarna er um að ræða álagsgreiðslur vegna sólarhringsvakta og bakvakta og yfirvinnu,“ segir Aðalbergur Sveinsson, formaður Lögreglufélags Reykjavíkur. „Við viljum sjá grunnlaun sem eru mannsæmandi og eðlileg.“ omfr@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert