Sjálfstæðisflokkurinn mun taka til varna

Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ef ríkisstjórnin ætlar sér að halda áfram linnulausum árásum á atvinnulífið, leggja stein í götu uppbyggingar og hafa að engu þarfir heimilanna fyrir aukinn kaupmátt og aukna velmegun – mun Sjálfstæðisflokkurinn hér eftir sem hingað til taka til varna fyrir heimilin og fyrirtækin.“

Þetta sagði Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Hún sagði að það ríkti pólitísk kreppa í landinu. Ríkisstjórnin væri í reynd minnihlutastjórn sem þyrfti að semja við sjálfan sig um alla hluti.

Ólöf gagnrýndi þau verkefni sem ríkisstjórnin hefði sett á forgangslistann, eins og breytingar á stjórnkerfi fiskveiða, aðild að ESB og breytingar á stjórnarskránni.

„Margir furða sig á lítilli samstöðu á Alþingi. Það er að hluta til rétt að stundum gengur illa að ná samstöðu hér í  þinginu. Á því eru þó skýringar. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki, í nafni sátta og samlyndis, tekið þátt í skattahækkunum og auknum álögum á fjölskyldur og heimili. Að sama skapi getur Sjálfstæðisflokkurinn heldur ekki stutt aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem draga úr og hamla vöxt í atvinnulífinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert