Framkvæmdir valda verulegum áhyggjum

Fréttamenn fengu að skoða hellinn í gær.
Fréttamenn fengu að skoða hellinn í gær. mbl.is/Golli

Orkuveita Reykjavíkur segir staðsetningu fyrirhugaðrar þjónustumiðstöðvar við Þríhnúkagíg valda verulegum áhyggjum. OR telur að fyrirhuguð framkvæmd ásamt starfsemi sem henni fylgi muni fela í sér óviðunandi hættu á mengun grunnvatns og vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins.

Þetta kemur fram í umsögn OR um tillögu að matsáætlun um Þríhnúkagíg.

Árni B. Stefánsson hellaskoðunarmaður sagði í samtali við mbl.is í gær að hann hefði fulla trú á að áformin stæðust allar kröfur, s.s. um vatnsvernd.

Í umsögn OR segir að áform um að opna gíghvelfingu Þríhnúkagígs fyrir ferðamenn sé áhugavert verkefni frá sjónarhóli náttúruupplifunar og ferðaþjónustu.

OR segir að fyrirhuguð framkvæmd við gerð þjónustumiðstöðvar muni fela í sér gerð tæplega þriggja km aðkomuvegar frá Bláfjöllum, bílastæði, gönguleiðir, útsýnisstað, allt að 2000 fermetra aðkomubyggingu, borun tæplega 350 metra jarðgangna og vatnsveitu vegna borana.

Starfsemi og rekstur þjónustumiðstöðvar muni fela í sér móttöku, veitingaaðstöðu, snyrtingu, lagningu vatnsveitu og rafstrengs og jafnvel hótelrekstur.

Í upphafi sé gert ráð fyrir að um 200 þúsund gestir heimsæki Þríhnúkagíg á ári en til framtíðar verði þeir allt að 500 þúsund á ári. Umferð ferðamanna að og frá þjónustumiðstöðinni og flutningar á eldsneyti og olíu muni fara um Bláfjallaveg, um Bláfjallaleið og nýjan aðkomuveg, að því er fram kemur í umsögn OR.

„OR telur þá hættu sem vatnbólum höfuðborgarbúa er búin með fyrirhugaðri framkvæmd og starfsemi algerlega óviðunandi. Höfuðborgarbúar mega ekki missa vatnsból sín og er hætt við að ekki verði aftur snúið í kjölfar mengunarslyss á svæðinu. OR telur að hagsmunir vatnsverndar á þessu svæði og hollustu neysluvatns vegi mun þyngra en hagsmunir ferðaþjónustu og útivistar,“ segir í lok umsagnarinnar.

Hrikaleg stærð og litadýrð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert