Hrikaleg stærð og litadýrð

Sá sem er svo heppinn að fá tækifæri til að skoða Þríhnúkagíg, gleymir því seint. Frá toppi gígsins og niður á botn eru 120 metrar í lóðréttu falli og þegar þangað er komið er hægt að komast 50 metrum dýpra með því að fara ofan í afkima hellisins. Litadýrðin er mikil og stærðin hrikaleg. Hægt væri að koma þar fyrir heilu blokkunum hlið við hlið og síðan setja Hallgrímskirkju ofan á þær.

Hugmyndir um að gera Þríhnúkagíg aðgengilegan fyrir ferðamenn hafa verið uppi um nokkra hríð og verkefnið er raunar komið á töluverðan rekspöl. Í dag var greint frá því að tekist hafi samstarf með hellarannsóknamönnunum Árna B. Stefánssyni og félögum hans í Þríhnúkum ehf., Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Icelandair Group og fjárfestingasjóðnum Stefni.

Þessir aðilar stefna að því að gera Þríhnúkagíg að ferðamannastað í fremstu röð

Hugmyndin er sú að reisa í hús í hraunjaðri skammt frá gígnum og þaðan yrði hægt að komast inn í gíginn um jarðgöng sem myndu opnast inn í hraunhvelfinguna í um 40-50 metra hæð. Þar með yrði hægt að komast inn í þetta 3000-4000 ára gamla eldfjall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert