Mun aldrei flytja skuldir á eignalaust fólk

Árni Páll Árnason efnahagsráðherra (t.h.) á Alþingi ásamt Ögmundi Jónassyni …
Árni Páll Árnason efnahagsráðherra (t.h.) á Alþingi ásamt Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

„Ég er ekki tilbúinn að flytja skuldir af þeim sem stofnuðu til þeirra yfir á eignalaust fólk sem á ekkert nema lífeyrisréttindin sín. Það mun ég aldrei gera. Og ef það er brottfararsök þá vil ég glaður láta samþykkja mig vantraust,“ sagði Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptráðherra, í sérstakri umræðu um afskriftir og afkomu banka á Alþingi.

Umræður um málið voru heitar og tóku margir þingmenn til máls, en Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var málshefjandi. Sagði hann að enginn Íslendingur myndi hagnast á því að einstaklingar og fyrirtæki yrðu yfirskuldsett á Íslandi.

Guðlaugur óskaði eftir því að efnahagsráðherra  svaraði eftirtöldum spurningum. Í fyrsta lagi hverjar væru raunverulegar leiðréttingar lánasafns á milli gömlu og nýju bankanna. Í öðru lagi hvernig stæði á því að tölur frá Seðlabanka Íslands væru ólíkar öðrum. Í þriðja lagi hvernig og hversu hratt þessar leiðréttingar hefðu skilað sér til heimila og fyrirtækja.

Í lok umræðunnar sagði Árni Páll að hún hefði verið um margt málefnanleg. Hins vegar hefðu menn komist upp með það athugasemdalaust að saka hann um að hafa haft í frammi einhvern blekkingarleik og vísvitandi haft uppi rangar upplýsingar varðandi málefni bankanna. Árni Páll segir að slík orðræða sé engum til sóma.

„Það liggur alveg fyrir hvaða upplýsingar ég lagði hér fram. Það eru upplýsingar sem eru byggðar á stofnefnahagsreikningi bankanna. Þar var ekki breytt nokkrum tölum. Þær tölur sem liggja fyrir um afskriftir eru líka byggðar á sömu gögnum, reikningum bankanna,“ sagði Árni Páll.

Miðað við þau gögn sem liggi fyrir sé búið að nýta tæpa 1.200 milljarða af þeim 1.700 milljörðum sem séu til ráðstöfunar. Árni Páll segir að menn viti að mjög mikið sé enn eftir af skuldaúrvinnslunni. Það sé því ekki einu sinni fullljóst hvort svigrúmið verði fullnýtt eða jafnvel hvort það verði að nýta enn meira svigrúm.

„Það verður þá gert á kostnað bankanna og það vil ég að verði gert,“ sagði Árni Páll.

Það sé sjálfsagt að greiða úr því hvað varðar ólíkar tölur og ólíkar forsendur um afskriftir bankanna. Árni Páll bendir á að forsætisráðherra hafi nú þegar sett af stað vinnu í því efni og óskað eftir aðkomu Hagsmunasamtaka heimilanna að þeirri vinnu.

„Það er rétt að vekja athygli á því hér og minna á það enn og aftur, að allar ákvarðanir sem teknar hafa verið um afskriftir skulda heimila og fyrirtækja hafa verið teknar hér á Alþingi með þverpólitískri samstöðu allra flokka og það bera allir ábyrgð á því. Og menn geta ekki hlaupist frá því hér,“ sagði Árni Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert