Markaðslögmál fá ekki alfarið að stýra sjávarútvegi

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra.
Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra. mbl.is/GSH

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda í gær að það væri ekki hans stefna að fela markaðslögmálunum alfarið að sjá fyrir íslenskum sjávarútvegi.

„Sá mikli veraldarmaður Sölvi Helgason gat með sexkanti reiknað mislita tvíbura í konu í annarri sókn og taldi það til afreka. Geimvísindi verðbréfanna sem engar skyldur höfðu gátu með sama hætti reiknað okkur allar heimsins snekkjur og lystisemdir til handa þjóð sem átti að verða sú ríkasta í heimi um aldir alda en skildi þó ekki annað eftir en hrundar skýjaborgir og ógreidda víxla.

Íslenskur sjávarútvegur sem treystir á jarðsamband byggðanna, skyldur sínar við þær og rækir hlutverk sitt í samfélaginu er sennilegri til farsældar þjóð sem er þá aðeins rík þegar henni tekst að sitja land sitt og byggðir þannig að sómi sé að," sagði Jón í ræðu sinni.

Jón sagði í ræðunni að vitaskuld væri margt óunnið varðandi skipulag sjávarútvegsins. „Ráðuneytið hefur nú að nýju tekið við af alþingi frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða og ég legg áherslu á að koma því sem fyrst í þinglega meðferð að nýju. Ráðuneytið mun yfirfara þær athugasemdir sem fram hafa komið og fara yfir ýmis álitaál," sagði Jón.

Ræða ráðherra í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka