Átti að fá 5 milljónir í vasann

Tryggvi Jónsson kemur í hús Héraðsdóms Reykjavíkur í dag.
Tryggvi Jónsson kemur í hús Héraðsdóms Reykjavíkur í dag.

Tryggvi Jónsson, fyrrum forstjóri Baugs, sagði fyrir dómi í dag að skýringin á því að á skjali sem fannst við húsleit 2002 hafi komið fram að ekki ætti að taka skatt af fimm milljónum sem áttu að renna til hans, væri sú að hann hefði viljað fá fimm milljónir í vasann eftir að staðið hefði verið skil á sköttum og gjöldum.

Yfirskrift umrædds skjals er „drög að starfskjörum" og fannst við húsleit ríkislögreglustjóra í húsakynnum Baugs árið 2002. 

Tryggvi sagði fyrir dómi í dag að þegar hann samdi um að taka til starfa fyrir Baug hefði hann þurft að hætta störfum á sínum fyrri vinnustað. Við starfslokin hefði hann þurft að selja hlutabréf í því fyrirtæki á tilteknum kjörum og tjón hans við það hefði verið metið á um fimm milljónir.

Tryggvi kvaðst hafa gert ráð fyrir að útreikningar á þessari greiðslu hefðu verið þannig að hún hefði verið skráð sem laun upp á u.þ.b. 8 milljónir og Baugur hefði komið þremur milljónum af þeirri fjárhæð til skattayfirvalda. Hann hefði síðan komist að því að svo hefði ekki verið gert og þá óskað eftir því að gengið yrði frá greiðslunni með réttum hætti. Ekki hefði orðið af því og hann gengið aftur eftir því. Loks hafi hann sjálfur séð um skattgreiðsluna árið 2004.

Greiðslan sem um ræðir kom reyndar frá Bónusi, en ekki Baugi, en Tryggvi starfaði aldrei fyrir Bónus. Tryggvi sagði að hann hefði í sjálfu sér ekki haft aðkomu að því frá hvaða hluthafa Baugs greiðslan kom. Hann ítrekaði að hann hefði aldrei svikið vísvitandi undan skatti og myndi aldrei gera það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert