Sparsamir ferðamenn sækja Ísland heim

Geysir í Haukadal.
Geysir í Haukadal. mbl.is/Ragnar Axelsson

Niðurstaða greiningardeildar Arion banka bendir til þess að Ísland sé að verða vinsæll staður fyrir sparneytna ferðamenn. Í því samhengi megi velta því fyrir sér hvort Ísland búi einfaldlega ekki yfir þeim kostum sem þarf til að taka á móti efnameiri ferðamönnum.

Það hefur verið yfirlýst markmið stjórnvalda í nokkurn tíma að fjölga ferðamönnum til landsins. Ýmsir aðilar innan ferðaþjónustunnar hafa nefnt mikilvægi þess að auka ferðamannastraum til landsins – ein milljón ferðamanna árið 2020 hefur oft verið nefnt í því samhengi.

Varhugavert að leggja að jöfnu magn og gæði

„Varhugavert er þó að leggja að jöfnu magn og gæði. Síðustu ár hafa tekjur á hvern ferðamann minnkað umtalsvert í evrum talið. Það má því velta fyrir sér hvort ekki væri eðlilegra að leggja fremur áherslu á að laða til landsins fjölbreyttari flóru ferðamanna sem myndu skila meiri gjaldeyristekjum til landsins en hinn almenni ferðamaður.

Með því að byggja upp ferðaþjónustu á þeirri forsendu að laða til landsins efnaðri ferðamenn væri hugsanlega hægt að auka gjaldeyristekjur án þess að ágangur ferðamanna verði íslenskri náttúru ofviða.

Núverandi stefna í ferðaþjónustu virðist ekki taka tillit til neikvæðra áhrifa, af auknu ferðamannastreymi, á íslenska náttúru," segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Nýta sér hagstætt gengi krónunnar

Niðurstöður greiningardeildar benda til þess að sú mikla fjölgun sem varð t.a.m. meðal erlendra ferðamanna á síðustu árum hafi að mestu stafað af auknu streymi „sparsamari túrista“ sem hafa nýtt sér hagstætt gengi krónunnar. Þetta sést einna helst þegar tölur yfir eyðslu á hvern ferðamann í evrum talið eru skoðaðar, en stærsti hluti ferðamanna sem hingað koma er frá Evrópu.

„Frá árinu 2002 hefur fjöldi ferðamanna aukist um 67% en á sama tíma hefur neysla hvers og eins ferðamanns, mæld í evrum, dregist saman um 44%. Má því velta því fyrir sér hvort Ísland sé að verða einskonar „heitur reitur“ fyrir sparneytna ferðamenn? Ýmislegt getur legið að baki þessari þróun.

Í því samhengi má t.a.m. velta því fyrir sér hvort Ísland búi einfaldlega ekki yfir þeim kostum sem þarf til að taka á móti efnameiri ferðamönnum fram að þessu. Reyndar mun tilkoma Hörpu og væntanleg uppbygging í kringum hana hugsanlega trekkja að neysluglaðari einstaklinga sem skilja fleiri evrur eftir sig.

Við þurfum meiri gjaldeyri frá hverjum ferðamanni. Mikilvægt er að laða hingað til lands ferðamenn sem eru tilbúnir að eyða meira en meðalferðamaðurinn. Slíkt væri án efa hagkvæmasta leiðin til að auka hér gjaldeyristekjur án þess að fjölgun ferðamanna gangi of nærri náttúrunni (ef það er markmið út af fyrir sig).

Ef gert er ráð fyrir því að hingað til lands kæmu í auknum mæli ferðamenn sem eyddu meira en hinn skilgreindi meðalferðamaður (65 þús. á dag í stað 30 þús., m.v. vikudvöl) þyrfti „eingöngu“ um 50% aukningu í fjölda ferðamanna til landsins (úr 490 þúsund í 720 þúsund) til að skapa sömu tekjur og myndu skapast við 100% aukningu þeirra ferðamanna sem í dag sækja landið heim," segir enn fremur í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert