Dimmir yfir Reykjanesbraut

Slökkt er á öðrum hverjum ljósastaur við Reykjanesbrautina.
Slökkt er á öðrum hverjum ljósastaur við Reykjanesbrautina. Rax / Ragnar Axelsson

Vegagerðin vinnur nú að því að slökkva á öðrum hverjum ljósastaur við Reykjanesbrautina. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er þetta gert í sparnaðarskyni.

Uppfært kl. 11.40

Lesandi mbl.is sem býr á Suðurnesjum tók eftir því í morgun, þegar hann ók inn eftir á leið til Reykjavíkur, að það logaði ekki nema á öðrum hverjum ljósastaur. Honum þótti skrýtið ef peran hefði bilaði í öðrum hverjum staur. Hann sá svo menn vera að vinna við ljósastaura í Hvassahrauni.

Maðurinn hringdi í Vegagerðina og fékk þá skýringu að þetta væri gert í sparnaðarskyni.

Hann kvaðst hafa af þessu áhyggjur og óttaðist að með því að taka út lýsinguna á öðrum hverjum staur sé dregið úr öryggi, sérstaklega þegar fer að snjóa og skafa á brautinni. Það finnist vel í vetrarmyrkrinu þegar ekki logi á öllum staurum, þá aki maður úr skímunni frá ljósunum inni í myrkrið og svo aftur í skímuna.

G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar sagði í samtali við mbl.is að lýsingin kosti mikið og fé sé ekki ótakmarkað til reksturs. Hann sagði að með þessu sparist allt að tíu milljónir króna á ári. Á liðnu sumri var alveg slökkt á lýsingunni í um tvo mánuði.

G. Pétur sagði að slegið sé út öryggi í staurunum sem slökkt er á. Búið er að slökkva á öðrum hverjum staur á hluta brautarinnar en því verður haldið áfram. Ekki verður þó slökkt á ljósunum við vegamót á brautinni.

Hann sagði áhöld um það hvort lýsing utan þéttbýlis veiti meira öryggi eða ekki. Einnig skapa ljósastaurarnir sjálfir ákveðna hættu. hann sagði að verði ákveðið að hafa slökkt á öðrum hverjum staur hljóti að verða skoðað hvort fjarlægja eigi staurana alveg þótt það sé ekki gert núna.

G. Pétur benti á að einungis önnur akbrautin er lýst, það ser sú sem ekið er eftir suður á Reykjanes. Hvað varðar slæm akstursskilyrði, eins og skafrenning, þá sagði hann að sumum þyki óþægilegt að hafa þessa lýsingu í skafrenningi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert