„Þetta er óþægilegt“

Mýrdalsjökull.
Mýrdalsjökull. mbl.is/RAX

„Þetta er náttúrulega óþægilegt og búið að vera hér mjög lengi. Og auðvitað finnur fólk fyrir þessu, það er ekkert hægt að neita því,“ segir Ásgeir Magnússon, sveitastjóri Mýrdalshrepps, um jarðskjálftana í Kötluöskjunni.

Veðurstofa Íslands segir að kl. 9:50 hafi orðið jarðskjálfti sem var 3,5 að stærð í sunnanverðri Kötluöskju. Skjálftinn fannst vel í Vík og nágrenni. Annar skjálfti, 2,5 stig, varð klukkan 10:18 í öskjunni. Segir Veðurstofan að enginn gosórói er sjáanlegur.

Ásgeir segir í samtali við mbl.is að menn viti af þessu og fylgist vel með. Svæðið sé aftur á móti vel vaktað af Almannavörnum og Veðurstofunni. Hann tekur fram að skjálfti að þessari stærð sé ekki nægilega öflugur til að skekja hús í bænum. Það þurfi meira til.

Allir í startholunum

Aðspurður segir hann að ekki hafi verið gripið til sérstakra ráðstafana vegna jarðskjálftanna. „Ekki eins og er. Það er bara fylgst með. Ef þessi órói heldur áfram og þetta verður eitthvað meira þá eru allir í startholunum til þess að gera það sem gera þarf,“ segir Ásgeir.

Menn bíði hins vegar rólegir enn um sinn. Skot sem þessi hafi komið með reglulegu millibili, eða annan eða þriðja hvern dag.

Hann tekur hins vegar fram að þetta sé bæjarbúum þungbært. „Við erum búin að ganga í gegnum tvö eldgos með skömmu millibili með tilheyrandi öskufalli, óþrifnaði og óþægindum. Síðan þegar brúin fór af Múlakvísl í sumar. Auðvitað hefur þetta áhrif,“ segir Ásgeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert