Herða leitina að ferðamanninum

Kortið sýnir nýja gönguleið yfir Fimmvörðuháls. Ferðamaðurinn hugðist ganga yfir …
Kortið sýnir nýja gönguleið yfir Fimmvörðuháls. Ferðamaðurinn hugðist ganga yfir hálsin en villtist af leið. Kort/www.lmi.is

Allt kapp er nú lagt á að finna sem fyrst erlenda ferðamanninn sem er týndur á Fimmvörðuhálsi en veður fer þar versnandi. Svanur Sævar Lárusson í svæðisstjórn björgunarsveita segir veðurspána fyrir hádegið ljóta og því verði lagt eins mikið og hægt er í leitina. Verið sé að bæta við björgunarsveitarmönnum og þeir séu nú orðnir hátt í tvö hundruð og komi allt  frá Suðurnesjum og austur að Álftaveri.  Leitað er á suðurhluta Fimmvörðuháls og aðeins inn á jöklana.


Svanur Sævar segir að þó maðurinn hafi sagst vera kominn á ís þurfi það ekki endilega að þýða að hann sé kominn á jöklana, þ.e. Eyjafjallajökul eða Mýrdalsjökul. „Á leiðinni upp Fimmvörðuháls eru margir snjókaflar sem geta verið frosnir og eru ísi þaktir.“
Þyrla Landhelgisgæslunnar var send austur í gær til aðstoðar við leitina en kom ekki að gagni vegna veðurs þar sem nokkur þoka hefur verið á svæðinu. Þyrlan var á svæðinu þar frá ellefu  í gærkvöldi til fjögur í nótt. Ný áhöfn var fengin rétt fyrir fimm og var þyrlan komin austur aftur rétt fyrir sex í morgun en þokan setur enn strik í reikninginn og bíður þyrlan því eftir að henni létti eitthvað.

Hvorki er vitað um aldur né þjóðerni mannsins. Maðurinn hringdi í Neyðarlínuna um tíu leytið í gærkvöldi og lét vita að hann væri villtur á Fimmvörðuhálsi. Símasamband er slæmt á þessum slóðum og slitnaði símtalið þegar búið var að fá upplýsingar um hvar maðurinn væri nokkurn veginn og hvaða leið hann hefði komið. Neyðarlínan gat séð frá hvaða sendi símtalið kom en hann er á Skógasandi.

Leitað að ferðamanni

Ferðamaðurinn ófundinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert