Hugsanlegt að taka upp danska krónu

Vilhjálmur Egilsson í Hörpu í dag.
Vilhjálmur Egilsson í Hörpu í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir út í hött að reikna með að viðræðum við Evrópusambandið um aðild Íslands að sambandinu ljúki á þessu kjörtímabilinu. Þeim ljúki í fyrsta lagi árið 2013 en líklega ekki fyrir en 2014. Íslandi geti þá orðið aðili á árunum 2015-16 ef samningur verði samþykktur.

Vilhjálmur sagði þetta á morgunverðarfundi SA í Hörpu í morgun. Hann ræddi þar um framtíð gjaldmiðlamála og sagði að á meðan Ísland stæði í viðræðum við ESB um aðild yrði að ganga út frá því að stefna íslenskra stjórnvalda væri að taka upp evru. Ef samningur um aðild yrði samþykktur gæti ferill, sem leiddi til þess að við tækjum upp evru, í fyrsta lagi hafist 2016.

Vilhjálmur sagði það væri búið að spá illa fyrir evrunni og kveða upp marga dauðadóma yfir henni. Samt hefði evran haldið sinni stöðu sem einn öflugasti gjaldmiðill heimsins. Það væri sama hvort menn skoðuðu stöðu gagnvart öðrum öflugum gjaldmiðlum, verðbólgu eða vexti, evran kæmi vel út í þessum samanburði. Hún væri a.m.k. miklu sterkari en íslenska krónan.

Vilhjálmur sagði að kosturinn við upptöku evru væri að þá fengjum við efnahagslegan stöðugleika og fengjum aðild að Evrópska seðlabankanum.

Ef við höfnuðum evrunni yrði að skoða þann kost að taka einhliða upp annan gjaldmiðil. „Ef við viljum taka upp annan gjaldmiðil verðum við að tengja okkur við fjármálakerfi heimaríkis gjaldmiðilsins. Það er algert lykilatriði. Þá er nærtækast fyrir okkur að skoða dönsku krónuna eða pundið, að mínu mati,“ sagði Vilhjálmur.

Vilhjálmur sagði að því fylgdu að sjálfsögðu kostir að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil og þá einkum sveigjanleiki í gengismálum. Vandamál krónunnar hefði verið að hún væri ekki samkeppnishæfur gjaldmiðill. „Krónan hefur frá upptöku í raun ekki verið fljótandi gjaldmiðill heldur sökkvandi gjaldmiðill. Hún hefur alltaf verið á niðurleið nema í ævintýrinu á síðasta áratug þegar Seðlabankinn ætlaði að gera okkur rík með því að hækka vextina og krónan hækkaði á móti.

Krónan hefur verið fórnarlamb agaleysis, en við teljum að við munum alla vega sitja uppi með krónuna út áratuginn og kannski til allrar framtíðar og þess vegna þýðir ekkert annað en að reyna að gera betur við hagstjórnina.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert