Vilja leggja niður Jöfnunarsjóð sveitarfélaga

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

Í drögum að ályktun sem lögð verður fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins er lagt til að  Jöfnunarsjóður sveitarfélaga verði lagður niður í núverandi mynd. Í ályktun flokksins um efnahagsmál segir að endurskoða þurfi allt millifærslukerfið því ljóst sé að fjármuni megi nýta á hagkvæmari hátt.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst á fimmtudaginn með ræðu formanns flokksins, Bjarna Benediktssonar.

„Ríkisútgjöld jukust um of á vakt Sjálfstæðisflokksins og því þarf nú að leiðrétta útgjöld hins opinbera. Nýta þarf fjármuni betur og nálgast hagræðingu með leiðréttingu útgjalda en ekki flötum niðurskurði. Setja þarf markmið um árangur og bætt afköst fyrir skattfé,“ segir í drögum að ályktun um efnahags- og skattamál.

Í drögunum segir að skattkerfið eigi fyrst og fremst að nýtast sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð en ekki sem tekjujöfnun eða neyslustýring. Einfalda eigi skattkerfið, gera það gegnsætt og gæta þess að skattar séu ekki svo háir að þeir dragi úr hvata til verðmætasköpunar. Draga eigi úr millifærslum, þannig að velferðarkerfið og skattkerfið séu aðskilin.

Hvatt er til þess að skoðaðir verði kostir þess að stytta grunn- og framhaldsskólanám, þannig að það verði styttra í árum talið og tíminn nýttur betur.

Þá segir að stefna skuli að því til framtíðar að flatur skattur verði að hámarki 15% á tekjur einstaklinga, lögaðila og á fjármagnstekjur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert