Samdráttur í umferð í borginni

Talning á völdum stöðum sýnir að 50% fleiri hjóla nú …
Talning á völdum stöðum sýnir að 50% fleiri hjóla nú en á árunum 2003-2004. mbl.is Haraldur Guðjónsson

Færri keyra einir til og frá vinnu og skóla í Reykjavík en áður eða 61% - og börnum sem ganga í skólann fjölgar ef marka má niðurstöður nýrrar ferðamátakönnunar sem Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar hefur gert. Bílaumferð hefur dregist saman um 2,8% milli áranna 2011 og 2010.

63% svarenda sögðu að barnið hefði farið fótgangandi í skólann en í fyrra svöruðu 61% sömu spurningu játandi. 9% sögðu að barnið hefði hjólað í skólann, 4% að það hefði farið með strætó eða skólabíl og 1% með öðrum hætti. Þá hefur hlutfall barna sem eru keyrð í skólann lækkað úr 34% á árinu 2007 í 22% á þessu ári, að því er fram kemur í frétt frá Reykjavíkurborg.

Einnig var spurt í könnunin með hvaða hætti fólk ferðast að jafnaði til vinnu eða skóla á morgnana? Færri Reykvíkingar en áður eða 61% reyndust keyra sjálfir þessa leið. Aftur á móti voru fleiri en áður farþegar í bíl eða 8% en voru 4% árið 2010. Árið 2008 fóru hins vegar 73% til og frá vinnu eða skóla sem bílstjórar í einkabíl.

Fleiri en áður fara til vinnu á hjóli eða 6% aðspurðra. Mikil aukning er í þeim hópi sem fara með strætó til vinnu eða skóla en það hlutfall hefur haldist í um 9% síðustu ár en var um 5% árið 2009.

Könnunin var gerð af Capacent-Gallup á tímabilinu 20. október til 3. nóvember 2011 og var svarhlutfall 61%.

Mikil aukning í hjólreiðum

Nýjar niðurstöður úr umferðartalningum Umhverfis- og samgöngusviðs sýna að dregið hefur úr bílaumferð um 2,8% milli áranna 2011 og 2010. Bílaumferð í Reykjavík er nú svipuð og hún var á milli áranna 2003 og 2004. Þá sýna þessar sömu talningar að hjólandi vegfarendum hefur fjölgað um 50% á milli ára á þeim stöðum þar sem umferðatalning fer fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert