Óréttmæt gagnrýni á Jón Bjarnason

Aðalsteinn Baldursson, forystumaður Framsýnar stéttarfélags.
Aðalsteinn Baldursson, forystumaður Framsýnar stéttarfélags.

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags, telur að Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafi orðið fyrir mjög óréttmætri gagnrýni. Hann segir að vinnugögnin um fiskveiðistjórnun hafi verið kynnt ríkisstjórninni fjórum dögum áður en þau voru sett á vef sjávarútvegsráðuneytisins.

„Það er með ólíkindum að það skuli vera ráðist gegn honum með þeim hætti sem verið er að gera. Sérstaklega er ég að tala um félaga hans í ríkisstjórninni,“ sagði Aðalsteinn í samtali við mbl.is. Hann skrifaði grein um aðförina að sjávarútvegsráðherra og birti á heimasíðu Framsýnar stéttarfélags.

„Enn sem komið er snýst gagnrýnin á Jón Bjarnason ekki um efni þeirra skjala sem lögð eru fram heldur um eðli stjórnmálanna. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er lofað gegnsæi og opinni stjórnsýslu en mörgum hefur þótt fara lítið fyrir þeirri nýbreytni í t.d. ESB málum eða málefnum sparisjóða svo dæmi séu tekin,“ segir m.a. í grein Aðalsteins.

Hann skrifar enn fremur að Jóni sé hótað brottrekstri úr ríkisstjórn fyrir að „fara að stefnu ríkisstjórnarinnar um gegnsæja og lýðræðislega stjórnsýslu. Stefna Jóhönnu-stjórnarinnar er að málin skuli rædd í hinum reykfylltu bakherbergjum og vei þeim sem ekki skilur það.“

Aðalsteinn sat í þriggja manna vinnuhópi sem sjávarútvegsráðherra skipaði til að endurskoða fiskveiðistjórnarfrumvarpið. Hann sagði að Jón hefði lagt fram frumvarp um fiskveiðistjórnun í mars s.l. Það hefði svo tekið gríðarmiklum breytingum og frumvarpið sem lagt var fram í maí hefði verið orðið allt annað frumvarp.

„Þetta mál er á könnu sjávarútvegsráðherra. Hann velur að stofna þriggja manna vinnuhóp og ég var einn af þeim,“ sagði Aðalsteinn. Auk hans voru í hópnum Atli Gíslason, alþingismaður, og Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri FISK Seafood á Sauðárkróki.

„Við lögðum gríðarmikla vinnu í að fara yfir allar þær fjölmörgu athugasemdir sem bárust,“ sagði Aðalsteinn. Hann kvaðst líta svo á að reynt hefði verið að sætta ólík sjónarmið.

Hann sagði greinilegt af viðbrögðum Samfylkingarinnar og forsætisráðherra að dæma að Jón sjávarútvegsráðherra fengi að gjalda fyrir að vilja fara hægt í viðræðum við Evrópusambandið.

Aðalsteinn kvaðst vera hlynntur því að veiðileyfagjald væri greitt af nýtingu auðlindarinnar. En hann sagði það vera ábyrgðarhluta af hálfu alþingismannanna Björns Vals Gíslasonar og Ólínu Þorvarðardóttur að mæla fyrir aukaskatti á landsbyggðina með mikilli hækkun veiðileyfagjaldsins.

„Hvaðan kemur þessi skattur,“ spurði Aðalsteinn og svaraði spurningunni. „86% af þessu kemur beint af landsbyggðinni. Þetta er beinn landsbyggðarskattur. Er það tillaga þeirra Björns Vals og Ólínu að auka enn á byrðar landsbyggðarinnar með gríðarlegri skattheimtu?“

Grein Aðalsteins Á. Baldurssonar á vef Framsýnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert