Fréttaskýring: Stjórn VG ræðir ráðherramál

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon við ríkisstjórnarborðið.
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon við ríkisstjórnarborðið. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs ætlar að ræða um breytingar á ráðherraskipan flokksins á fundi nk. föstudag. Stjórnin hefur ekki vald til að taka ákvörðun í málinu heldur er það þingflokksins að gera það.

Stjórn VG heldur að jafnaði fund einu sinni mánuði. Í stjórninni sitja ellefu menn, þar á meðal menn sem í vikunni rituðu nöfn sín undir auglýsingu þar sem lýst var stuðningi við Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Sumir af stuðningsmönnum Jóns hafa talað um atlögu gegn honum. Hvort „atlaga“ er rétta orðið er álitamál, en víst er að hún var í það minnsta ekki vel skipulögð. Innan stjórnarliðsins hafa ýmsir haft horn í síðu Jóns og í ríkisstjórninni hafa verið átök um vinnu hans við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða og afstöðu hans til umsóknar um aðild að ESB þar sem hann fer fyrir mikilvægum málaflokkum. Óánægja með vinnu Jóns að endurskoðun kvótalaganna leiddi til harðra átaka á ríkisstjórnarfundi sl. föstudag þegar ákveðið var að skipa ráðherranefnd í málið og taka það þannig úr höndum Jóns. Jón brást þannig við að birta á vef ráðuneytisins drög að frumvarpi og vinnuskjöl vinnuhóps ráðuneytisins. Þetta varð síðan til þess að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra gagnrýndi Jón mjög harkalega fyrir vinnubrögð hans í málinu og sagði að hann væri að móta stefnu sem væri ekki í samræmi við stefnu stjórnarflokkanna í sjávarútvegsmálum.

Hvað tekur við?

Þessi atburðarás var ekki hönnuð fyrirfram og þegar síðan eru settar fram efasemdir um að Jón njóti stuðnings til að vera ráðherra áfram er alls óvíst hvað tekur við. Forystumenn stjórnarflokkanna voru ekki búnir að taka ákvörðun um það fyrirfram.
Um miðja vikuna varpaði Jóhanna boltanum frá sér og sagði að það væri þingflokks VG að taka ákvörðun um hverjir væru ráðherrar fyrir hans hönd. Í þingflokknum er alls ekki samstaða um að víkja Jóni til hliðar þó vitað sé að meirihlutinn muni fylgja þeirri tillögu sem formaður flokksins gerir.

Það er vandasamt fyrir leiðtoga stjórnarflokkanna að gera breytingar á ríkisstjórn á miðju kjörtímabilinu. Það eru mörg sjónarmið sem þarf að horfa til og eftirspurn eftir ráðherrasætum er meira en framboðið. Best þykir að gera slíkar breytingar með stuttum fyrirvara. Það að boða breytingar á ríkisstjórninni, eins og forsætisráðherra hefur gert, en láta síðan nokkrar vikur líða þangað til þær eru framkvæmdar gerir breytingarnar um margt erfiðari. Stuðningsmenn Jóns hafa t.d. verið að safna liði og þrýsta nú fast á forystu flokksins. Þeir ætla að ræða málið á fundi í stjórn VG og koma óánægju sinni rækilega til skila. Steingrímur er því í þröngri stöðu.

Það eina sem liggur klárt fyrir núna er að Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra fer í fæðingarorlof á næsta ári. Hún stefnir að því að sinna ráðherraembætti út janúar, en meðgangan eða breytt skipan ríkisstjórnarinnar gætu þó breytt því. Katrín á von á tvíburum í mars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert