Öllu snúið á haus

Árni Páll Árnason.
Árni Páll Árnason. mbl.is/Sigurgeir

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, gagnrýndi fjármálaráðuneytið á Alþingi í dag fyrir að að afgreiða ekki kostnaðarmat á frumvarpi um eftirlitsgjald sem rennur til Fjármálaeftirlitsins.

Frumvarpið var lagt fram í haust en þar er gert ráð fyrir að að gjaldið skili rúmum 2 milljörðum króna á næsta ári. Árni Páll sagðist hins vegar ekki hafa fengið tækifæri til að mæla fyrir frumvarpinu á þingi.

„Auðvitað er það ámælisvert að löggjafarvaldinu og fjárveitingarvaldinu þar með gefist ekki færi á að skoða skýringar Fjármálaeftirlitsins, sannreyna þær og þrautprófa eins og ávallt hefur verið gert á undanförnum árum þegar frumvarp þetta hefur verið lagt fram á haustþingi," sagði Árni Páll. 

Hann sagði mjög sérkennilegt að fjárlaganefnd Alþingis skyldi nú afmarka rammann fyrir fjárveitingar til Fjármálaeftirlitsins áður en efnahags- og viðskiptanefnd þingsins fengi frumvarpið um rekstarfjárþörf stofnunarinnar til meðferðar.

„Hér er öllu snúið á haus og ástæðan er einföld, sú að (fjármálaráðuneytið) skirrtist við að afgreiða kostnaðarmat á þessu frumvarpi þannig að mér var ekki mögulegt að rækja starfsskyldur mínar og leggja það fram. Það var óskað eftir kostnaðarmati 1. nóvember og fjármálaráðuneytið einfaldlega beið með að afgreiða það og kom þannig í veg fyrir að hægt væri að leggja þetta frumvarp hér fram og það fengi efnislega umræðu í þinginu," sagði Árni Páll.

Hann sagði að ekki væri viðunandi að fjármálaráðuneytið hefði með þessum hætti efnisleg áhrif á möguleika fjárveitingarvaldsins til að fjalla um mál sem hafa í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert