Herjólfur notaður áfram

Herjólfur í Landeyjahöfn.
Herjólfur í Landeyjahöfn. mbl.is/GSH

Ákveðið hefur verið, að á meðan unnið er að framtíðarlausn í siglingum milli lands og Vestmannaeyja verði Herjólfur notaður og siglt á Landeyjahöfn þegar hægt er en annars til Þorlákshafnar.

Þetta var niðurstaða fundar fulltrúa innanríkisráðuneytis, Vestmannaeyjabæjar, Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar í vikunni.

Áfram verður reynt eftir föngum að halda nægilegu dýpi fyrir Herjólf í Landeyjahöfn. Ekki verður því að sinni leitað frekar eftir öðru skipi til að leigja til siglinganna á þessum tíma.

Höfuðáhersla verður nú lögð á hönnun og smíði nýrrar ferju auk þess sem allra leiða verður leitað til að tryggja að aðstæður við höfnina verði slíkar að hentugri ferja geti haldið uppi samgöngum þangað allt árið.

Af hálfu Siglingastofnunar er unnið að endurskoðun útreikninga á efnisburði í ljósi breyttra aðstæðna sem einkum má rekja til eldgossins í Eyjafjallajökli. Hér eftir sem hingað til mun stofnunin fá utanaðkomandi sérfræðinga til aðstoðar. Áfram verður unnið með dönsku straumfræðistöðinni DHI en jafnframt hefur verið ákveðið að leita álita hjá tveimur reyndum aðilum sem ekki komu að hönnun hafnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert