Tveir EFTA-dómarar vanhæfir?

Skrifstofur EFTA í Brussel.
Skrifstofur EFTA í Brussel. mbl.is

Hugsanlegt er að tveir af þeim þremur dómurum sem sæti eiga í EFTA-dómstólnum kunni að vera vanhæfir til þess að fjalla um Icesave-málið, en eins og fram kom á mbl.is í morgun hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákveðið að stefna íslenskum stjórnvöldum fyrir dóminn einkum vegna þess að þau hafi ekki tryggt að Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta (TIF) gæti staðið við skuldbindingar sínar þegar íslensku bankarnir féllu haustið 2008.

Þrír dómarar sitja í EFTA-dómstólnum og kemur einn frá hverju af þeim þremur EFTA-ríkjum sem aðild eiga að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES); Íslandi, Noregi og Liechtenstein.

Núverandi dómarar eru Carl Baudenbache frá Liechtenstein, fyrrum lagaprófessor, sem jafnframt er forseti EFTA-dómstólsins, Páll Hreinsson frá Íslandi, fyrrum hæstaréttardómari og lagaprófessor við Háskóla Íslands, og Per Christiansen frá Noregi, fyrrum lagaprófessor við Háskólann í Tromsø.

Páll var skipaður dómari við EFTA-dómstólinn frá og með 15. september síðastliðnum en áður hafði hann meðal annars verið formaður rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið þar sem meðal annars var fjallað efnislega um Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta og um ábyrgð á innistæðum meðal annars í tengslum við Icesave-deiluna.

Ummæli í fjölmiðlum um Icesave

Eins og fjallað var um í Morgunblaðinu 11. júní í sumar tók Christiansen sæti í EFTA-dómstólnum í byrjun þessa árs en hann hafði áður sem prófessor við háskólann í Tromsø tjáð sig um Icesave málið í fjölmiðlum.

Þannig sagði hann til að mynda í samtali við norska dagblaðið Aftenposten 12. janúar 2010 að það fjárhagslega tjón sem orðið hefði vegna Icesave-málsins væri fyrst og fremst afleiðing íslenskra ákvarðana. Að hluta til af hálfu íslenskra stjórnvalda og að hluta til íslenskra banka. „Ef menn eru þeirrar skoðunar að íslenska ríkið eigi ekki að greiða fyrir tapið verður samhliða því að svara þeirri spurningu hver eigi þá að greiða fyrir það,“ var ennfremur haft eftir honum í fréttinni.

Í samtali við vefmiðilinn Pressan.is 13. janúar 2010 sagði Christansen að það eina sem virtist ljóst væri að Íslendingum bæri lagaleg skylda til þess að greiða innistæðutryggingar vegna Icesave-reikninganna. Sagði hann ennfremur að þar sem það væri  í lögum að slíkar tryggingar skyldu greiddar hlyti það að þýða að ríkið færi ekki eftir tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar ef ekki reyndist mögulegt að greiða þær út.

Fordæmi fyrir vanhæfi

Þá sagði í frétt Morgunblaðsins að fordæmi væru fyrir því að dómarar við EFTA-dómstólinn hafi sagt sig frá málum vegna þess að þeir hafi áður fjallað opinberlega um efni þeim tengt. Þannig hafi forseti dómsins, Carl Baudenbacher, sagt sig frá máli árið 2008 þar sem hann hafði áður en hann varð dómari ritað fræðilegar greinar sem tengdust efni þess.

Samkvæmt þeim reglum sem gilda um EFTA-dómstólinn er dómari vanhæfur til þess að fjalla um mál hafi hann á einhvern hátt komið að því. Þess utan getur dómari lýst sig sjálfan vanhæfan telji hann ástæðu til og þá getur forseti dómsins tilkynnt dómara að hann telji að hann ætti ekki að fjalla um ákveðið mál.

Ef dómarar við EFTA-dómstólinn reynast vanhæfir til þess að fjalla um mál eru kallaðir til varadómarar dómsins. Í tilfelli Íslands eru það Áslaug Björgvinsdóttir, héraðsdómari, og Benedikt Bogason, dómstjóri. Í tilfelli Noregs gegna því hlutverki Ola Mestad, lagaprófessor, og Bjørg Ven, lögmaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert