Óhöpp í þæfingsfærð

Ökumaður þessa jepplings er einn af fjölmörgum sem hafa lent …
Ökumaður þessa jepplings er einn af fjölmörgum sem hafa lent í vandræðum í vetrarfærðinni í dag. Myndin er tekin á Kjalarnesi. mbl.is/Eggert

Vetrarfærð er um allt land og hafa margir ökumenn lent í vandræðum; hafnað utan vegar eða fest bíla í sköflum. Á Grindavíkurvegi hafnaði rúta utan vegar nú á öðrum tímanum. Þá lenti vörubifreið í vandræðum á Suðurlandsvegi við Litlu kaffistofuna.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er unnið að því að aðstoða bílana. Vörubifreiðin lokar veginum en menn binda vonir við að það muni ekki taka langan tíma að opna aftur fyrir umferð.

Víða er vond færð á höfuðborgarsvæðinu, m.a. á Víkurvegi í Grafarvogi. Að sögn blaðamanns mbl.is er nú löng bílaröð þar.

Samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hefur engan sakað í þeim óhöppum sem hafa orðið í dag.

Snjóblásari kemur að góðum notum

Arnar E. Ragnarsson, flokksstjóri í þjónustustöð Vegagerðarinnar í Hafnarfirði, segir að um 20 tæki vinni nú að því að ryðja og moka snjó á og við höfuðborgarsvæðið. Í nógu hafi verið að snúast í allan dag við að halda aðalleiðum opnum. Á Suðurnesjum og á Vesturlandsvegi skefur mikið og hafa starfsmenn Vegagerðarinnar m.a. þurft að nota snjóblásara. Arnar segir að það séu liðin nokkur ár frá því menn hafi þurft að nota blásarann innanbæjar. Hann komi nú að góðum notum.

Aðspurður segir hann að almennir ökumenn sýni starfsmönnum Vegagerðarinnar skilning þar sem þeir eru að störfum.

Hvasst á Kjalarnesi

Á Kjalarnesi er þæfingsfærð og þar er nú hvöss austnorðaustanátt. Í hviðum hefur vindhraðinn mælst 23 metrar á sekúndu að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Vegagerðin segir að hálkublettir séu á höfuðborgarsvæðinu. Snjóþekja er á Reykjanesbraut og á Grindavíkurvegi er ansi blint, þæfingsfærð og slæmt ferðaveður. Þar fór rúta út af veginum nú á öðrum tímanum. Að sögn Vegagerðarinnar er unnið að því að koma henni til aðstoðar.

Nokkur hálka er á Suðurnesjum. Þæfingsfærð er á eystri hluta Suðurstrandarvegar en ófært á vestari hluta leiðarinnar.

Vegna veðurs hefur verið horfið frá mokstri á Suðurstrandarvegi og Krýsuvíkurvegi sem er líka ófær.

Bílar standa kyrrstæðir í röð á Víkurvegi í dag og …
Bílar standa kyrrstæðir í röð á Víkurvegi í dag og bíða þess að snjómoksturtæki greiði götu þeirra. mbl.is/Hjörtur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert