Norðausturleiðin að opnast

Norska olíuskipið Åsgard C er í eigu Statoil. Myndin tengist …
Norska olíuskipið Åsgard C er í eigu Statoil. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Ljósmynd/Øyvind Hagen

Líklegt þykir að næsta sumar geti norskt gasflutningaskip siglt sem leið liggur norðausturleiðina svokölluðu og þannig stytt siglingaleiðina til Asíu verulega. Flutningaskipið Ribera del Duero Knutsen kemur eitt til greina enda er það sérútbúið til siglinga á slóðum þar sem vænta má hafíss.

Fjallað er um málið á vef norska útvarpsins og kemur þar fram að 27 skip hafi siglt norðausturleiðina í fyrrasumar og að það hafi verið mikil aukning frá fyrra sumri.

Búist við frekari aukningu

Næsta sumar sé búist við frekari fjölgun skipa. En Norðausturleiðin er siglingaleið milli Atlantshafsins og Kyrrahafsins meðfram norðurströnd Rússlands. Stærstur hluti leiðarinnar er í ísilögðu Norður-Íshafinu og hlutar hennar eru aðeins íslausir tvo mánuði á ári.

Það er skipafyrirtækið Knutsen OAS Shipping í Haugasundi sem hefur fengið leyfi frá rússneskum stjórnvöldum til að sigla gasflutningaskipinu Ribera del Duero Knutsen um norðausturleiðina næsta sumar. Er það sérútbúið til siglinga á slíkum slóðum.

Gas frá Mjallhvíti

Rætt er við yfirmann tæknimála hjá fyrirtækinu í Haugasundi á vef norska útvarpsins. Segir heimildarmaðurinn fyrirtækið ekki hafa hafið viðræður við olíurisann Statoil um flutning gass frá gaslindinni Mjallhvít, eða Snøhvit, til markaða í Asíu. Er málið því á byrjunarstigi.

Sigling um leiðina frá Hammerfest til Japans er talin munu taka 20 daga en það þýðir að skipið getur farið í allt að þrjár ferðir á sumri.

Er siglingin sögð taka talsvert styttri tíma en þegar siglt er suður fyrir Afríku eða um Súez-skurðinn. En í þessum tímamismun er fólginn mikill sparnaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert